Christian ræður ferðinni

Christian Eriksen.
Christian Eriksen. AFP

Kasper Hjulmand, þjálfari danska karlalandsliðsins í knattspyrnu, kveðst vera í reglulegu sambandi við Christian Eriksen, leikmann Inter Mílanó, sem er að vonum ekki í danska landsliðshópnum fyrir leikina gegn Moldóvu og Austurríki í undankeppni HM.

Eriksen hefur ekki spilað fótbolta síðan hann hneig niður í leik Danmerkur og Finnlands á EM á Parken í sumar og óvíst er með framhaldið hjá honum en Eriksen hefur sjálfur ekkert sagt um hvort eða hvenær hann stígi aftur inn á völlinn.

„Ég er í reglulegu sambandi við Christian og þetta fer allt eftir hans áætlunum. Hann ákveður hvað hann segir um sína stöðu og hvenær. Við ræðum saman og hann hefur það fínt, en það er hans að tjá sig frekar um gang mála,“ sagði Hjulmand þegar hann tilkynnti 23 manna hóp sinn í dag.

Simon Kjær, landsliðsfyrirliði Dana, hefur misst af tveimur síðustu leikjum AC Milan en Hjulmand kvaðst reikna með honum tilbúnum í báða leikina.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert