Grindvíkingur með þrennu í undankeppni HM

Rachel Furness, númer 10, og Ólína Viðarsdóttir í hörðum slag …
Rachel Furness, númer 10, og Ólína Viðarsdóttir í hörðum slag í landsleik á Laugardalsvellinum árið 2010, sama ár og hún lék með Grindavík. Ólína lék áður með Grindavík. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Rachel Furness, fyrrverandi leikmaður með kvennaliði Grindavíkur, skoraði þrennu í undankeppni heimsmeistaramótsins í knattspyrnu í dag.

Furness, sem er 33 ára gömul og leikur með landsliði Norður-Írlands, skoraði fimm mörk fyrir Grindvíkinga í úrvalsdeildinni og bikarkeppninni árið 2010. Hún hefur síðan leikið með ensku liðunum Sunderland, Reading, Tottenham og nú síðast Liverpool sem hún spilar með í ensku B-deildinni en hún er á sínu þriðja ári hjá félaginu.

Furness skoraði þrjú mörk í Skopje í dag þegar lið Norður-Írlands rótburstaði Norður-Makedóníu, 11:0, í D-riðli undankeppni HM. Liðið er í harðri baráttu við Austurríki um að komast í umspil en England hefur unnið alla sína leiki í riðlinum. Norður-írska liðið er á leið í lokakeppni EM á Englandi næsta sumar og leikur þar í fyrsta skipti.

Einum öðrum leik er lokið í undankeppni HM í dag. Danmörk vann Bosníu 3:0 á útivelli og hefur unnið fimm fyrstu leiki sína í E-riðli keppninnar. Þar heyja Danir og Rússar einvígi um hvort liðanna kemst beint á HM.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert