Hollenska markavélin áfram hjá Arsenal

Vivianne Miedema í leik með Arsenal gegn Wolfsburg í Meistaradeild …
Vivianne Miedema í leik með Arsenal gegn Wolfsburg í Meistaradeild Evrópu í mars síðastliðnum. AFP/Ben Stansall

Knattspyrnukonan Vivianne Miedema, hinn mikli markahrókur enska úrvalsdeildarliðsins Arsenal og hollenska landsliðsins, hefur skrifað undir nýjan eins árs samning við Lundúnafélagið.

Samningur hennar var að renna út í sumar og hafði spænska stórliðið Barcelona sýnt henni mikinn áhuga auk þess sem franska stórliði París Saint-Germain hafði einnig áhuga.

Miedema ákvað hins vegar að halda kyrru fyrir og verður því að minnsta kosti í sex ár hjá liðinu, en hún kom til Arsenal frá Bayern München sumarið 2017.

Hún hefur alls skorað 117 mörk í 144 leikjum í öllum keppnum fyrir Arsenal og unnið ensku úrvalsdeildina einu sinni og ensku bikarkeppnina einu sinni.

Þá hefur Miedema skorað 92 mörk í 108 landsleikjum fyrir Holland.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert