Frá Juventus til Arsenal

Lina Hurtig (t.h.) fagnar marki með sænska landsliðinu á EM …
Lina Hurtig (t.h.) fagnar marki með sænska landsliðinu á EM 2022 í sumar. AFP/Franck Fife

Kvennalið Arsenal í knattspyrnu hefur samið við sænska framherjann Linu Hurtig, sem kemur frá Ítalíumeisturum Juventus, nýju liði Söru Bjarkar Gunnarsdóttur landsliðsfyrirliða.

Hurtig vann ítölsku A-deildina bæði tímabil sín með Juventus og einnig ítalska bikarinn á því síðasta.

Hún er 26 ára gömul og hefur áður leikið með Umeå og Linköping í heimalandinu.

Hurtig á að baki 58 landsleiki fyrir Svíþjóð þar sem hún hefur skorað 19 mörk.

Var hún hluti af sænska liðinu sem komst í undanúrslit EM 2022 á Englandi í sumar.

„Þetta er frábær tilfinning, ég er mjög hamingjusöm að vera hér. Ég hef ávallt viljað spila á Englandi,“ sagði Hurtig í samtali við heimasíðu Arsenal.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert