Nasistakveðjur stuðningsmanna fordæmdar

Myndin tengist fréttinni ekki með beinum hætti.
Myndin tengist fréttinni ekki með beinum hætti. AFP/Lionel Bonaventure

Nokkrir stuðningsmenn ástralska knattspyrnuliðsins Sydney United 58 urðu sér til skammar þegar liðið mætti Macarthur í úrslitaleik áströlsku bikarkeppninnar um helgina. Umræddir stuðningsmenn sýndu nasistatákn og –kveðjur á leiknum.

Á ljósmyndum sem birtust á samfélagsmiðlum um helgina má sjá nokkra stuðningsmenn Sydney United sýna nasistakveðjur.

Knattspyrnusamband Ástralíu gagnrýndi það sem það kallaði gjörðir lítils minnihluta harðlega.

Slíkt hið sama gerðu forsvarsmenn Sydney United, sem áður hét Sydney Croatia, og fordæmdu gjörðir stuðningsmanna sinna.

Lögreglan í New South Wales rannsakar nú málið í samvinnu við Knattspyrnusamband Ástralíu, sem hefur sömuleiðis sett á fót sína eigin rannsókn.

Hluti af rannsókn knattspyrnusambandsins snýr einnig að bauli og söngvum á meðan opnunarhátíð leiksins stóð, þar sem átti að bjóða frumbyggja Ástralíu velkomna.

Sydney United varð fyrsta ástralska utandeildarliðið í sögunni til þess að komast alla leið í úrslit bikarkeppninnar þar í landi en tapaði fyrir A-deildarliði Macarthur, 2:0, í úrslitaleiknum um helgina.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert