Tilfinningin alltaf góð

Alfons Sampsted er mættur til Twente.
Alfons Sampsted er mættur til Twente. Ljósmynd/Twente

Alfons Sampsted, landsliðsmaður í fótbolta, gerði í vikunni þriggja og hálfs árs samning við hollenska félagið Twente. Hann kemur til félagsins eftir afar vel heppnaða þriggja ára veru hjá Bodö/Glimt í Noregi.

„Ég var samningslaus hjá Bodö/Glimt og ég kláraði þar í nóvember. Stuttu eftir það kemur þetta hjá Twente upp á borð. Þeir sýndu mér mikinn áhuga og lýstu því fyrir mér hvernig þeir sæju mig í liðinu. Við ræddum svo hvernig hægt er að þróa mig sem leikmann og hvernig ég get orðið góður partur af þessu liði,“ sagði Alfons um félagaskiptin í samtali við Morgunblaðið.

„Tilfinningin frá fyrsta símtalinu var mjög góð, en þetta tók sinn tíma. Við ræddum við aðra klúbba og sáum hvernig landið lá og hvað var í boði. Þegar upp var staðið var ég alltaf hrifinn af Twente og var spenntur fyrir því,“ bætti hann við.

Gott skipulag og frelsi

Alfons varð í tvígang norskur meistari með Bodö/Glimt og tók þátt í riðlakeppni Evrópu- og Sambandsdeildanna. Lék hann við hollenska liðið AZ Alkmaar í Sambandsdeildinni og PSV í Evrópudeildinni. Þar fékk hann smjörþefinn af hollenska fótboltanum og stemningunni þar í landi.

„Fyrstu kynni mín af þeim voru þegar við vorum að fara að spila við PSV í Evrópukeppni. Þá notuðum við leik Twente og PSV til að leikgreina. Ég held að við hjá Bodö/Glimt höfum vanmetið PSV aðeins, því Twente var virkilega gott á móti þeim. Ég var hrifinn af því sem ég sá hjá Twente þá.

Ég horfði síðan á 3-4 leiki á meðan viðræðurnar voru í gangi og sá að það er mikil orka í þessu liði og það spilar sóknarsinnaðan fótbolta. Það er gott skipulag, en á sama tíma frelsi til þess að taka eigin ákvarðanir. Mér fannst leikstíllinn því heillandi og það er stór hluti af því að ég valdi Twente frekar en aðra kosti.“

Viðtalið má lesa í heild sinni á íþróttasíðum Morgunblaðsins í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert