Engin draumabyrjun hjá Ronaldo í Arabíu

Cristiano Ronaldo var svekktur í kvöld.
Cristiano Ronaldo var svekktur í kvöld. AFP/Fayez Nureldine

Portúgalska ofurstjarnan Cristiano Ronaldo og liðsfélagar hans í Al Nassr eru úr leik í sádi-arabísku bikarkeppninni eftir 1:3-tap fyrir Al Ittihad í kvöld. 

Brassinn Romarinho kom Ittihad yfir og Marokkóinn Abderrazak Hamdallah tvöfaldaði forystu liðsins undir lok fyrri hálfleiksins. Landi Romarinho, Anderson Talisca, minnkaði svo muninn fyrir Al Nassr á 67. mínútu en heimamaðurinn Muhannad Shanqeeti innsiglaði sigur Ittihad í uppbótartíma, 3:1. 

Ronaldo skoraði ekki í sínum fyrstu tveimur keppnisleikjum með Al Nassr og nú er liðið úr leik í bikarkeppninni. Þrátt fyrir það er liðið á toppnum í sádí-arabísku úrvalsdeildinni eftir 14 umferðir. 

mbl.is