Ekkert fær Napoli stöðvað

Giovanni Simeone fagnar sigurmarki sínu í kvöld.
Giovanni Simeone fagnar sigurmarki sínu í kvöld. AFP/Andreas Solaro

Ekkert virðist geta komið í veg fyrir það að Napoli verði Ítalíumeistari í þriðja sinn en liðið lagði José Mourinho og lærisveina hans í Roma, 2:1, í ítölsku A-deildinni í knattspyrnu í kvöld.

Napoli varð síðast Ítalíumeistari árið 1990 en goðsögnin Diego Armando Maradona lék þá með liðinu. Það eru því komin 33 ár frá síðasta deildartitli liðsins.

Victor Osimhen kom Napoli yfir á 17. mínútu í kvöld eftir undirbúning Georgíumannsins skemmtilega Khvicha Kvaratskhelia. Stephan El Shaarawy jafnaði metin fyrir Roma á 75. mínútu en það var Giovanni Simeone sem skoraði sigurmark Napoli á 86. mínútu.

Napoli er á toppi deildarinnar með 53 stig, 13 stigum meira en Inter sem er í öðru sæti. Roma er í sjötta sæti með 37 stig þegar 18 leikir eru eftir.

Leikmenn Napoli fagna sigrinum í kvöld.
Leikmenn Napoli fagna sigrinum í kvöld. AFP/Andreas Solaro
mbl.is