Óttar lánaður í C-deildina

Óttar Magnús Karlsson fagnar marki í leik með Oakland Roots …
Óttar Magnús Karlsson fagnar marki í leik með Oakland Roots undir lok síðasta árs. Ljósmynd/@oaklandrootssc

Óttar Magnús Karlsson, knattspyrnumaður hjá Venezia í ítölsku B-deildinni, hefur skrifað undir lánssamning við ítalska C-deildar liðið Virtus Francavilla sem gildir til loka yfirstandandi keppnistímabils.

Óttar Magnús var allt síðasta ár á láni hjá Oakland Roots í bandarísku B-deildinni, þar sem hann fór á kostum og skoraði 19 mörk í 30 leikjum og varð með því markakóngur deildarinnar.

Hann gekk til liðs við Venezia frá Víkingi úr Reykjavík haustið 2020 og var fyrri hluta tímabilsins 2021/2022 að láni hjá Siena í ítölsku C-deildinni.

Nú mun hann aftur reyna fyrir sér í sömu deild. Virtus Francavilla er í 10. sæti C-riðils C-deildarinnar sem stendur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert