Guðný lagði upp í dramatísku jafntefli í Íslendingaslag

Guðný Árnadóttir í leik með íslenska landsliðinu.
Guðný Árnadóttir í leik með íslenska landsliðinu. mbl.is/Eggert Jóhannesson

AC Milan og Fiorentina skildu jöfn, 3:3, í ítölsku A-deildinni í knattspyrnu í dag.

Guðný Árnadóttir lék fyrri hálfleikinn í liði Milan og lagði upp fyrsta markið fyrir Valery Vigilucci. Kosovare Asllani tvöfaldaði forystu Milan í fyrri hálfleiknum áður en Verónica Boquete minnkaði muninn á 69. mínútu.

Martina Piemonte skoraði þriðja mark Milan á 74. mínútu og virtist þá fara langleiðina með að tryggja liðinu sigurinn en á 88. mínútu og 94. mínútu skoruðu þær Pauline Hammarlund og Boquete og jöfnuðu metin fyrir Fiorentina. 

Alexandra Jóhannsdóttir lék allan leikinn í liði Fiorentina en hún fékk að líta gula spjaldið á 78. mínútu.

Deildinni hefur verið tvískipt og spila nú efri fimm liðin innbyrðis sem og neðri fimm. Milan og Fiorentina eru bæði í efri hlutanum, með 35 stig, í fjórða og fimmta sæti. Milan er ofar á markatölu.

Alexandra Jóhannsdóttir.
Alexandra Jóhannsdóttir. mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is