Landsliðsmönnum Perú lenti saman við spænsku lögregluna

Pedro Gallese, markvörður Perú, í leik með liðinu gegn Þýskalandi …
Pedro Gallese, markvörður Perú, í leik með liðinu gegn Þýskalandi á dögunum. AFP/Thomas Kienzle

Leikmenn karlalandsliðs Perú í knattspyrnu og spænskum lögreglumönnum lenti saman fyrir framan hótel liðsins í Madríd í gær.

Aðdragandann má rekja til þess að stuðningsmenn Perú voru staddir fyrir utan liðshótelið og sungu fyrir leikmenn, sem fylgdust með stuðningsmönnunum.

Pedro Gallese, markvörður Perú og liðsfélagi Dags Dan Þórhallssonar hjá Orlando City í Bandaríkjunum, gekk í átt að stuðningsmönnunum og var þá hrint af lögreglumanni.

Gallese ýtti honum þá til baka, sem leiddi til smávægilegra átaka milli nokkra leikmanna og starfsmanna Perú og lögreglumanna.

Markvörðurinn var handtekinn en svo sleppt að lokinni yfirheyrslu.

„Við vildum heilsa upp á fólkið og þá byrjaði lögreglan að slá okkur,“ sagði Gallese í samtali við sjónvarpsstöðina Peruvian TV.

Perú mætir Marokkó í vináttulandsleik á Wanda Metropolitano-leikvanginum í Madríd í kvöld.

Reuters greinir frá því að 27 ára gamall starfsmaður hótels í Madríd hafi verið handtekinn fyrir hatursglæp eftir að hafa gerst uppvís að kynþáttaníði í garð leikmanna Marokkó, sem dvelja á hótelinu sem maðurinn starfar á.

mbl.is