9 leikmenn Indiana og Detroit í leikbann vegna slagsmála

Ron Artest í stympingum við áhorfendur í Detroit.
Ron Artest í stympingum við áhorfendur í Detroit. AP

Ron Artest, leikmaður Indiana Pacers, var úrskurðaður í keppnisbann það sem eftir er keppnistímabilsins í bandarísku NBA körfuboltadeildinni fyrir að fara upp í áhorfendasvæðið og slást við áhorfendur á leik Indiana og Detroit Pistons aðfaranótt laugardags.

Alls voru 9 leikmenn úr báðum liðum úrskurðaðir í keppnisbann fyrir slagsmál, sem brutust út í lok leiksins. Stephen Jackson, leikmaður Indiana, fékk 30 leikja bann og félagi hans, Jermaine O'Neal 25 leikja bann. Ben Wallace, leikmaður Detroit, fékk sex leikja bann og Anthony Johnson, leikmaður Indiana, 5 leikja bann. Þá voru Reggie Miller, leikmaður Indiana, og Chauncey Billups, Elden Campbell og Derrick Coleman fengu allir eins leiks bann. Leikmennirnir eru einnig hýrudregnir.

mbl.is