„Ég er búinn að æfa eins og skepna“

Sveinbjörn Iura, Egill Blöndal, Logi Haraldsson og Grímur Ívarsson á …
Sveinbjörn Iura, Egill Blöndal, Logi Haraldsson og Grímur Ívarsson á verðlaunapalli í dag. mbl.is/Árni Sæberg

Egill Blöndal vann í dag sinn fyrsta Íslandsmeistaratitil í opnum flokki í júdói þegar hann hafði betur gegn Sveinbirni Iura í úrslitaglímu á Íslandsmeistaramótinu sem fram fór í Laugardalshöll.

„Ég er búinn að glíma við Sveinbjörn í fimm ár en hef alltaf tapað á móti honum. Ég var að vinna hann í fyrsta sinn í dag, og það tvisvar. Og algjörlega á réttum tímapunkti,“ sagði Egill þegar mbl.is ræddi við hann strax að lokinni verðlaunaafhendingu.

Ljóst var á fögnuðinum eftir að Egill skoraði úrslitastigið að sigurinn skipti hann miklu máli.

„Ég er búinn að æfa eins og skepna undanfarin ár en samt búinn að tapa fyrir öllum þessum strákum. Það er því mjög gaman að vinna þá, og ég hef aldrei unnið Íslandsmeistaramót í fullorðinsflokki,“ sagði Egill, en ákveðin kynslóðaskipti eru að eiga sér stað í júdóinu.

Í þriðja sæti urðu þeir Grímur Ívarsson og Logi Haraldsson og Egill er ánægður með þá sem eru að stíga inn á sviðið.

„Það eru miklar breytingar í gangi og er alveg ótrúlega gaman. Það eru mjög margir ungir að koma inn í þetta og þeir gömlu að detta út. Það er bara mjög gaman að þessu og bara kominn tími til,“ sagði Egill.

En hvað er framundan hjá honum?

„Það eru Smáþjóðaleikarnir, og svo fer ég á Norðurlandamótið eftir tvær vikur. Ég stefni svo á að fara á Evrópumót í sumar. Planið er svo Ólympíuleikarnir í Tókýó árið 2020. Ég þarf bara að halda áfram að byggja mig upp fyrir það og ná inn stigum á stórum mótum,“ sagði Egill Blöndal við mbl.is í dag.

mbl.is