Ég hefði eflaust öskrað víti

Helgi Sigurðsson, þjálfari Fylkis.
Helgi Sigurðsson, þjálfari Fylkis. Ljósmynd/Helgi Sigurðsson

„Miðað við hvað við lögðum í þennan leik þá áttum við þetta skilið. Við vorum frábærir í fyrri hálfleik og við sköpuðum okkur fullt af færum. Staðan var hins vegar bara 1:0 í hálfleik og við töluðum um það í hálfleik að þeir myndu gera áhlaup á okkur og við þyrftum að standast það,“ sagði Helgi Sigurðsson, þjálfari Fylkis, eftir 1:0 sigur á Breiðabliki í 32-liða úrslitum Borgunarbikars karla í kvöld. 

„Við bjuggumst samt ekki við að þetta yrði svona langt áhlaup. Meiri hlutann í seinni hálfleik voru þeir að pressa okkur og við vorum verulega mikið í vörn. Maður er alltaf smeykur í svoleiðis stöðum, en að sama skapi treysti ég mínum mönnum þó að þeir séu gjörsamlega búnir á því.“

„Ég er mjög ánægður með að þeir sköpuðu engin alvöru færi. Það voru nokkrir í mínu liði orðnir verulega þreyttir og því miður gat maður ekki skipt fleirum út af. Menn héldu samt sem áður áfram og eru tilbúnir að fórna sér fyrir liðið, þegar menn gera það, ná þeir að njóta sín sem einstaklingar og þá erum við til alls líklegir.“

Fylkir tryggði sér sigurinn með marki Daða Ólafssonar á vítapunktinum en skömmu áður vildu Blikar fá víti. 

„Ef við byrjum á okkar víti, þá fannst mér það vera víti, það er farið aftan í hann. Varðandi hitt, þá sá ég það ekki nógu vel. Það getur verið að boltinn hafi farið í höndina á honum, en þá spyr maður sig hvort þetta hafi verið af of stuttu færi til að dæma, ég áttaði mig ekki alveg á því. Ég hefði eflaust öskrað víti í þeirra sporum,“ sagði Helgi. 

mbl.is