Vantar herslumun

Aníta Hinriksdóttir nálgast tveggja mínútna múrinn.
Aníta Hinriksdóttir nálgast tveggja mínútna múrinn. mbl.is/Árni Sæberg

Aníta Hinriksdóttir var aftur hársbreidd frá því að komast í fyrsta skipti undir 2 mínútur í 800 metra hlaupi kvenna þegar hún varð í sjöunda sæti í greininni á Demantamóti Alþjóða frjálsíþróttasambandsins í Stokkhólmi í gær.

Aníta setti nýtt Íslandsmet á fimmtudagskvöldið á Demantamóti í Ósló þegar hún hljóp á 2:00,05 mínútum. Þar bætti hún metið sem hún setti á Ólympíuleikunum í Ríó í fyrra, en það var 2:00,14 mínútur. Í gær var tími Anítu 2:00,06 mínútur þannig að hún var 1/100 úr sekúndu frá metinu og 7/100 úr sekúndu frá því að komast í fyrsta skipti undir tveggja mínútna múrinn.

Silfurhafinn sigraði

Rétt eins og í Ósló var tíu hlaupurum boðin þátttaka í Stokkhólmi en í þetta sinn voru tvær af þremur þeirra bestu ekki með. Francine Niyonsaba frá Búrúndí, sem fékk silfurverðlaunin á ÓL í Ríó í fyrra, vann hlaupið á 1:59,11 mínútu. Mikið jafnræði var í hlaupinu því þær sex sem voru á undan Anítu hlupu allar á rétt undir tveimur mínútum. Lovisa Lindh frá Svíþjóð fékk silfrið á 1:59,41 og Selina Buchel frá Sviss fékk bronsið á 1:59,66 mínútum.

Melissa Bishop frá Kanada hljóp á 1:59,70, Olha Lyakhova frá Úkraínu á 1:59,84 og Rose Mary Almanza varð sjötta á 1:59,93 mínútum.

Á eftir Anítu komu Lynsey Sharp frá Bretlandi á 2:00,19 mínútum og Angelika Chichocka frá Póllandi á 2:03,30 en Jennifer Meadows frá Bretlandi lauk ekki hlaupinu.