Stefna á að setja heimsmet í handstöðu

Eyþóra Elísabet Þórsdóttir sýnir hér glæsileg tilþrif á Reykjavíkurleikunum í ...
Eyþóra Elísabet Þórsdóttir sýnir hér glæsileg tilþrif á Reykjavíkurleikunum í vetur. mbl.is/Árni Sæberg

Fimleikasamband Íslands heldur í dag upp á 50 ára afmæli sitt og í tilefni dagsins verður boðið til afmælisveislu í Laugardagskvöld þar sem stefnt er á að setja heimsmet.

Í fréttatilkynningu frá Fimleikasambandinu segir;

„Öllu fimleikafólki og öðrum áhugasömum er boðið að koma og taka þátt í því með okkur að setja heimsmet og fá svo fimleikaköku í framhaldinu.

Markmiðið er s.s. að setja heimsmet í fjölda einstaklinga sem gera handstöðu samtímis. Metið í dag er 399 manns og við stefnum á að ná 500 manns. Heyrst hefur að fimleikafélögin séu að fjölmenna í Laugardalshöllina, búið að gefa frí á æfingum og jafnvel panta rútur til að iðkendurnir geti tekið þátt.

Af sama tilefni skrifa Fimleikasambandið og Reykjavíkurborg undir samstarfssamning vegna EUROGYM, risa fimleikahátíðar sem haldin verður í Reykjavík árið 2020. Markmið hátíðarinnar er að sýna, njóta og taka þátt í fimleikum á eigin forsendum og gerum við ráð fyrir að Reykjavíkurborg verði iðandi af fimleikalífi í júlí 2020.

Dagskrá dagsins:

18:00 = Mæting í Laugardalshöllina

18:00 - 18:30 = Skráning á þátttakendum (fullt nafn og kennitala) fyrir heimsmetabók Guinness.

18:30 - 19:00 = Æfing tekin inn í salnum með drónum og myndavélum til að senda til Guinness.

18:50 – 19:00 = Skrifað undir samning með borgarstjóra á EuroGym sem haldið verður á Íslandi 2020.

19:15 – 19:30 = Heimsmetið slegið og afmæli og íslenskum fimleikum fagnað.

19:30 = Öllum boðið í afmælisköku í anddyrinu.

mbl.is