Ágústa og Rúnar unnu á fyrsta TT-mótinu

Karen Axelsdóttir, Ágústa Edda Björnsdóttir og Kristín Vala Matthíasdóttir.
Karen Axelsdóttir, Ágústa Edda Björnsdóttir og Kristín Vala Matthíasdóttir.

Rúnar Örn Ágústsson í Breiðablik og Ágústa Edda Björnsdóttir í Tindi stóðu uppi sem sigurvegarar í fyrstu tímatökukeppni ársins og jafnframt fyrsta bikarmóti ársins í greininni. Í ungmennaflokki kom Eyþór Eiríksson í HFR fyrstur í mark.

Keppnin er haldin af Breiðablik og er hjólað á Krýsuvíkurvegi. Byrjað er við Bláfjallaafleggjarann og hjólað upp að námum og þaðan niður allan Krýsuvíkurveg og snúið við á hringtorgi og farið aftur upp að námum áður en komið er aftur að Bláfjallaafleggjara. Er millitími tekinn við Bláfjallaafleggjara þegar farið er þar fram hjá.

Hákon Hrafn Sigurðsson, Rúnar Örn Ágústsson og Eyjólfur Guðgeirsson.
Hákon Hrafn Sigurðsson, Rúnar Örn Ágústsson og Eyjólfur Guðgeirsson.

Rúnar var með besta fyrsta millitíma í karlaflokki, tæplega hálfri mínútu á undan Hákoni Hrafni Sigurðssyni, og hélt þeirri forystu til enda. Kom hann í mark á tímanum 27:19, en Hákon var á 28:54.

Í kvennaflokki sigraði Ágústa Edda sem fyrr segir. Var hún strax 23 sekúndum á undan Karen Axelsdóttur í Tindi, sem lenti í öðru sæti, eftir fyrsta millitíma. Hélt hún uppteknum hætti á síðari kafla brautarinnar og kom í mark á 32:44, eða 1 mínútu og 36 sekúndum á undan Karen sem var á 34:20.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert