Guðlaug þrítugasta í Kasakstan

Guðlaug Edda.
Guðlaug Edda. Ljósmynd/Þríþrautarsamband Íslands

Þríþraut­ar­kon­an Guðlaug Edda Hann­es­dótt­ir lenti í 30. sæti á heimsbikarmótinu sem fram fór í Kasakstan í dag.

Vegna veðurs þurfti að breyta keppninni í tvíþraut en sundinu var sleppt. Guðlaug segir keppni hafa gengið ágætlega. 

„Það er auðvitað svekkjandi að fá ekki að synda, þar sem það er mín sterkasta grein, en maður verður bara að taka því eins og það er. Það var líka ótrúlega kalt miðað við hvað búist var við en í morgun voru 2°C. Fyrsta hlaupið gekk vel en lítil mistök á fyrsta skiptisvæðinu kostuðu mig fyrsta hjólahópinn, en ég reyndi bara að vinna eins og ég gat í þeim hópi sem ég var í. Ég byrjaði svo að krampa örlítið á seinustu fjórum kílómetrunum en heilt yfir er ég ánægð með hvað ég gerði, sérstaklega miðað við aðstæður,“ sagði hún að keppni lokinni.

Guðlaug stefnir á þátttöku á Ólympíuleikunum í Tókýó árið 2020 en mótið í dag hefur áhrif á styrkleikalista leikanna. Hún situr eins og er í 166. sæti heimslistans yfir sterkustu þríþrautarkonur heims.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert