Sveit ÍR meistari á nýju Íslandsmeti

ÍR-ingarnir Guðbjörg Jóna Bjarnadóttir, Tiana Ósk Whitworth og Hrafnhild Eir …
ÍR-ingarnir Guðbjörg Jóna Bjarnadóttir, Tiana Ósk Whitworth og Hrafnhild Eir R. Hermóðsdóttir koma í mark í 100 metra hlaupinu í dag. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Sveit ÍR í 4x100 metra hlaupi kvenna kom í mark á 46,29 sekúndum á 92. Meistaramóti Íslands sem fram fer á Sauðárkróki um helgina og sló í leiðinni eigið Íslandsmet um 0,13 sekúndur.

Sveitina skipa Íslandsmeistarinn í greininni, Tiana Ósk Whitworth, Evrópumeistarinn 18 ára og yngri, Guðbjörg Jóna Bjarnadóttir, og svo Hrafnhild Eir R. Hermóðsdóttir og Helga Margrét Haraldsdóttir. Sveit FH hafnaði í öðru sæti og Sveit Breiðabliks í því þriðja. 

Í 100 metra hlaupi kvenna vann Tiana Ósk Whitworth á 11,75 sekúndum. Hún var 0,11 sekúndum á undan Guðbjörgu Jónu Bjarnadóttur sem varð önnur. Hrafnhild Eir R. Hermóðsdóttir varð þriðja á 11,97 sekúndum. 

Í 100 metra hlaupi karla kom Jóhann Björn Sigurbjörnsson fyrstur í mark á 10,66 sekúndum. Ívar Kristinn Jasonarson var annar á 10,81 sekúndu og Kristófer Þorgrímsson varð þriðji á 10,94 sekúndum. 

Ívar Kristinn Jasonarson vann 400 metra hlaup karla á 49,25 sekúndum. Arnar Valur Vignisson varð annar og Bjarni Anton Theodórsson hafnaði í þriðja sæti. í kvennaflokki vann Þórdís Eva Steinsdóttir öruggan sigur. Hún hljóp á 56,42 sekúndum. Melkorka Rán Hafliðadóttir og Dagbjört Lilja Magnúsdóttir tóku annað og þriðja sætið. 

Dagur Andri Einarsson, Kristófer Þorgrímsson, Arnaldur Þór Guðmundsson og Ari Bragi Kárason skipuðu sveit FH sem vann öruggan sigur í 4x100 metra boðhlaupi á tímanum 41,63 sekúndur. Sveinbjörn Óli Svavarsson, Ísak Óli Traustason, Daníel Þórarinsson og Jóhann Björn Sigurbjörnsson í sveit UMSS urðu í öðru sæti. 

Iðunn Björg Arnaldsdóttir kom fyrst í mark í 1.500 metra hlaupi. Hún hljóp á 4:56,85 mínútum. Þremur sekúndum á eftir henni kom Helga Guðný Elíasdóttir og Sólrún Soffía Arnardóttir varð þriðja. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert