Björg setti nýtt met á EM

Björg Hólmfríður Kristófersdóttir.
Björg Hólmfríður Kristófersdóttir. Ljósmynd/Sundsamband Íslands

Björg Hólmfríður Kristófersdóttir setti í dag nýtt garpamet í 50 metra bringusundi á Evrópumóti garpa sem fram fer í Slóveníu.

Sundsamband Íslands greinir frá því að Björg hafi synt á tímanum 52,45 sekúndum sem skilaði henni 9. sæti af 19 keppendum í hennar aldursflokki. Gamla metið í greininni átti Ragna María Ragnarsdóttir, en tími hennar var 1:06,89 mínútur sem hún setti í Reykjavík árið 2013.

Auk Bjargar er Guðmunda Ólöf Jónasdóttir á meðal keppenda á EM, en báðar keppa þær í 50 metra skriðsundi á morgun. Guðmunda keppir einnig í 100 metra skriðsundi á fimmtudag og Björg í 100 metra bringusundi á föstudag.

Á mótinu starfa jafnframt tveir íslenskir dómarar, þau Sigurþór Sævarsson og Viktoría Gísladóttir. Sigurþór var til að mynda fánaberi á opnunarhátíð mótsins í gær, en auk þeirra er Hörður J. Oddfríðarson, formaður SSÍ, að störfum á mótinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert