Djokovic jafnaði við Sampras

Novak Djokovic smellir kossi á verðlaunagripinn eftir sigur á US ...
Novak Djokovic smellir kossi á verðlaunagripinn eftir sigur á US Open. AFP

Serbinn Novak Djokovic vann öruggan sigur á hinum argentínska Juan Martin del Potro í úrslitaleik einliðaleiks karla á US Open í gærkvöld. Djokovic vann leikinn 3:0 (6:3, 7:6(4), 6:3).

Djokovic hefur þar með unnið US Open þrisvar sinnum og alls unnið 14 risamót á ferlinum. Þar með jafnar hann Pete Sampras í 3.-4. sæti yfir þá sem flesta risatitla hafa unnið á ferlinum. Svisslendingurinn Roger Federer trónir á toppnum með 20 titla og Rafael Nadal hefur unnið 17.

Djokovic er einn af átta mönnum sem unnið hafa Wimbledon og US Open á sama ári og hann hefur nú gert það þrisvar sinnum. Serbinn hefur komist á sitt fyrra flug í ár eftir að hafa farið í gegnum átta risamót án þess að komast í undanúrslit, frá árinu 2016 og fram að Wimbledon-mótinu í ár. Á þessum tíma glímdi Djokovic við olnbogameiðsli en virtist einnig eiga við „persónuleg vandamál“ að stríða, eins og hann lýsti því sjálfur.

Del Potro lék nú til úrslita á risamóti í fyrsta sinn síðan árið 2009 en hann var nálægt því að leggja spaðann á hilluna árið 2015 eftir þrálát meiðsli í úlnlið.

Novak Djokovic í úrslitaleiknum.
Novak Djokovic í úrslitaleiknum. AFP
mbl.is