Ágúst og Azia meistarar í fyrsta skipti

Ágúst Heiðar Sveinbjörnsson með sigurverðlaun sín í dag.
Ágúst Heiðar Sveinbjörnsson með sigurverðlaun sín í dag. mbl.is/Eggert

Ágúst Heiðar Sveinbjörnsson varð í dag Íslandsmeistari í opnum flokki í kumite eftir sigur á Ólafi Engilbert Árnasyni í úrslitabardaga. Íslandsmótið fór fram í Fylkisselinu í Norðlingaholti og var Ágúst að vinna sinn fyrsta Íslandsmeistaratitil í fullorðinsflokki. 

Í kvennaflokki varð hin 17 ára gamla Azia Sól Adamsdóttir Íslandsmeistari í fyrsta skipti í fullorðinsflokki eftir öruggan sigur á Ólöfu Soffíu Eðvarðsdóttur í úrslitum. Azia verður 18 ára á árinu og mátti því í fyrsta skipti keppa í opnum flokki. 

Efnilegasta karatekona landsins, Iveta Ivanova, vann sannfærandi sigur á Freyju Stígsdóttur í úrslitum í -61 kg flokki. Iveta mátti hins vegar ekki keppa í opnum flokki þar sem hún er á 17. aldursári, en 18 ára aldurstakmark er í flokkinn. Aðeins tveir keppendur voru í flokknum og barðist Iveta því aðeins einu sinni á mótinu. 

Telma Rut Frímannsdóttir var best í +61 kg. flokki en hún hafnaði í þriðja sæti í opna flokknum eftir tap fyrir Aziu í undanúrslitum. Ólafur Engilbert Árnason vann í +67 kg. flokki hjá körlunum eftir sigur á Ágústi Heiðari í úrslitum. Máni Karl Guðmundsson varnn svo -67kg. flokk karla. 

Fylkir vann sannfærandi sigur í liðakeppninni, eins og svo oft áður, og kom Þórshamar þar á eftir. Afturelding hafnaði í þriðja sæti liðakeppninnar. 

Frekari umfjöllun og viðtöl við Íslandsmeistara eru væntanleg á mbl.is og í Morgunblaðinu sem gefið verður út á mánudaginn. 

Azia Sól Adamsdóttir fagnar sínum fyrsta Íslandsmeistaratitli.
Azia Sól Adamsdóttir fagnar sínum fyrsta Íslandsmeistaratitli. mbl.is/Eggert
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert