Róbert Ísak með heimsmet í fjórsundi

Róbert Ísak Jónsson, Patrik Viggó Vilbergsson og Aron Þór Jónsson …
Róbert Ísak Jónsson, Patrik Viggó Vilbergsson og Aron Þór Jónsson á verðlaunapalli í dag. Ljósmynd/ÍF

Róbert Ísak Jónsson gerði sér lítið fyrir og sló heimsmet í 400 m fjórsundi í flokki þroskahamlaðra S20 á Íslandsmótinu í sundi í Hafnarfjarðarlaug í dag. Hann keppti á meðal ófatlaðra og hafnaði í öðru sæti í sundinu á eftir Patrik Viggó Vilbergssyni sem varð fyrstur á 4:31,84 sekúndum. Patrik vann einnig 800 metra skriðsund á 8:20,37 mínútum. 

Róbert hafnaði svo í þriðja sæti í 100 m flugsundi á 59,12 sekúndum sem er nýtt Íslandsmet. Dadó Fenrir Jasminuson kom fyrstur í mark í sundinu á 55,07 sekúndum. 

Í 50 metra baksundi kvenna kom Ingibjörg Kristín Jónsdóttir í mark á 28,26 sekúndum, 0,18 sekúndum á undan Eygló Ósk Gústafsdóttur. 

Sveit SH kom fyrst í mark í 4x100 metra fjórsundi. Ingibjörg Kristín Jónsdóttir, Sunna Svanlaug Vilhjálmsdóttir, Katarína Róbertsdóttir og Jóhanna Elín Guðmundsdóttir syntu á 4:16,15 mínútum og komu tæpum tveimur sekúndum á undan ÍBR. 

Í 4x100 metra skriðsundi karla varð SH Íslandsmeistari á 3:34,31 mínútu. Dadó Fenrir, Anton Sveinn, Kolbeinn Hrafnkelsson og Aron Örn Stefánsson skipuðu sveitina. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert