Þetta var bara geggjað

Martha Hermannsdóttir skorar fyrir Ísland í leiknum í kvöld.
Martha Hermannsdóttir skorar fyrir Ísland í leiknum í kvöld. mbl.is/Ljósmynd/Robert Spasovski

„Þetta var æðislegt og örugglega skemmtilegustu mínútur sem ég hef spilað í handbolta,“ sagði Martha Hermannsdóttir, landsliðskona í handknattleik og brosti úr að eyrum, eftir að hafa lokið sínum fyrsta landsleik á ævinni 35 ára gömul sem hluti af íslenska landsliðinu sem vann 13 marka sigur, 36:23, á tyrkneska landsliðinu í upphafsleik landsliðsins í undankeppni HM í Skopje í kvöld.

„Fyrir viku var ég heima á Akureyri að gera við tennur er nú er ég hér og nýbúin að leika inn fyrsta landsleik. Það var frábært að fá að koma inn á og skora tvö mörk. Þetta var bara geggjað,“ sagði Martha sem lék um það bil 15 síðustu mínútur leiksins, skoraði tvö mörk en var einnig einu sinni vísað af leikvelli í tvær mínútur.

„Ég var með mitt hlutverk á hreinu eins og aðrir leikmenn liðsins og þess vegna var enginn hnútur í maganum fyrir að koma inn á. Mörkin tvö voru frábær. Fyrra markið skoraði ég eftir að sú tyrkneska ætlaði að fiska á mig ruðning. Henni varð ekki kápan úr því klæðinu en kannski kjálkabraut ég hana. Hún var að drepast í kjálkanum. Ég hefði kannski átt að kíkja á hana,“ sagði Martha sem er tannlæknir. „Reynslubolti eins og ég læt ekki fiska á mig ruðning, ekki á svona einfaldan hátt.“

Martha hikaði ekki við að taka víti í lokin og skora. „Ég var fljót að rétta upp hönd á fundi í morgun þegar spurt var hverjar vildu taka vítaköst.“

Martha segir sigurinn í kvöld vera frábært upphaf fyrir landsliðið sem stendur frammi fyrir öðruvísi andstæðingi en liðið fékkst við í kvöld. Lið Makedóníu er skipað stærri og sterkari leikmönnum en það tyrkneska.

„Þetta mjög góð byrjun hjá okkur, ekki síst í síðari hálfleik sem var frábær af okkar hálfu. Eftir stórsigur Makedóníu í kvöld þá er ljóst að okkar bíður úrslitaleikur við heimaliðið á morgun. Það er bara þannig,“ sagði Martha Hermannsdóttir sem lék sinn fyrsta landsleik í handknattleik í kvöld.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert