Margrét yfir 100 stiga múrinn

Margrét Sól Torfadóttir.
Margrét Sól Torfadóttir. Ljósmynd/Skautasamband Íslands

Margrét Sól Torfadóttir hjá SR varð í gær fyrsta íslenska konan til að fá yfir 100 stig í heildarkeppni í fullorðinsflokki í listdansi á skautum. Hún bar þá sigur úr býtum á Íslandsmeistaramóti Skautasambands Íslands í Egilshöll.

Margrét fékk samanlagt 102,25 stig fyrir æfingar sínar í stuttum æfingum og frjálum æfingum og vann með yfirburðum. Margrét framkvæmdi tvo tvöfalda Axela sem heppnuðust afar vel.

Aðeins tveir keppendur voru í flokknum og fékk Eva Dögg Sæmundsdóttir hjá Fjölni 86,97 stig.

Marta María Jóhannsdóttir.
Marta María Jóhannsdóttir. mbl.is/Kristinn Magnússon

Í unglingaflokki varði Marta María Jóhannsdóttir úr SA Íslandsmeistaratitil sinn. Hún fékk samanlagt 103,10 stig fyrir glæsilegar æfingar. Marta vann með tæplega þriggja stiga mun, en Aldís Kara Bergsdóttir varð önnur með 100,51 stig og var það í fyrsta skipti sem Aldís náði 100 stigum. Viktoría Lind Björnsdóttir fékk brons með æfingar upp á 91,71 stig.

Ísold í miklum ham

Í stúlknaflokki hafði Ísold Fönn Vilhjálmsdóttir mikla yfirburði. Hún fékk 41,51 stig í stuttum æfingum á laugardaginn, sem er nýtt Íslandsmet í stúlknaflokki. Ísold skautaði einnig afar vel í frjálsum æfingum í gær. Hún skilaði hreinum æfingum með glæsilegum tvöföldum Axel og fékk 64,53 stig og samanlagt 106,07 stig. Hún bætti persónulegan árangur og eigið stigamet í flokknum um fimm stig. Ísold hefur staðið sig vel erlendis á árinu og er efnileg skautakona. 32 stigum á eftir Ísold kom Rebekka Rós Ómarsdóttir sem varð önnur. Herdís Heiða King Guðjohnsen varð þriðja með 74,21 stig.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert