Besta frjálsíþróttafólk heims valið

Caterine Ibarguen og Eliud Kipchoge með verðlaunagripi sína í kvöld.
Caterine Ibarguen og Eliud Kipchoge með verðlaunagripi sína í kvöld. AFP

Keníamaðurinn Eliud Kipchoge og hin kólumbíska Caterine Ibarguen voru nú í kvöld heiðruð sem frjálsíþróttafólk ársins 2018 á hófi Alþjóðafrjálsíþróttasambandsins í Mónakó.

Kipchoge setti á árinu heimsmet í maraþoni þegar hann vann Berlínarmaraþonið á 2:01,39 klukkustundum. Hann bætti metið um 78 sekúndur. Áður, eða í apríl, hafði þessi 34 ára gamli hlaupari unnið Lundúnamaraþonið af öryggi á 2:04,17 klukkustundum.

Ibarguen er best í heimi í þrístökki og fagnaði sigri á öllum átta mótunum á árinu þar sem hún keppti í greininni. Hún lét ekki þar við sitja heldur vann einnig fjölda titla í langstökki. Hún vann til að mynda tvöfalt í Demantamótaröðinni. Ibarguen, sem er 34 ára gömul, fór lengst 14,96 metra í þrístökkinu og setti kólumbískt met í langstökki með 6,93 metra stökki.

Vonarstjörnur frjálsra íþrótta voru einnig valdar en það voru þau Sydney McLaughlin, 400 metra grindahlaupari og hlaupari frá Bandaríkjunum, og Armand Duplantis frá Svíþjóð sem er stangarstökkvari.

Þá var einnig tilkynnt að heimsmeistaramótið í frjálsum íþróttum árið 2023 færi fram í Búdapest, höfuðborg Ungverjalands.

mbl.is