Fjögur gull hjá Valgarð

Valgarð Reinhardsson fór mikinn á Íslandsmeistaramótinu í áhaldafimleikum um helgina.
Valgarð Reinhardsson fór mikinn á Íslandsmeistaramótinu í áhaldafimleikum um helgina. mbl.is/Eggert

Valgarð Reinhardsson úr Gerplu fór mikinn á seinni degi Íslandsmeistaramótsins í áhaldafimleikum sem fram fór í fimleikahúsi Ármanns um helgina en hann sigraði á fjórum áhöldum í dag. Valgarð fékk gull á hringjum, í stökki, á tvíslá og svifrá. Eyþór Örn Baldursson úr Gerplu sigraði á gólfi og Arnþór Daði Jónsson úr Gerplu fór með sigur af hólmi á bogahesti.

Í kvennaflokki skiptust verðlaunin jafnt á milli keppenda, en Gerplustelpur skiptu á milli sín þrennum verðlaunum af fernum. Andrea Ingibjörg Orradóttir sigraði í stökki, nýkrýndur Íslandsmeistari í fjölþraut, Agnes Suto-Tuuha á tvíslá og Sunna Kristín Ríkharðsdóttir á slá. Það var svo Katharína Sybilla Jóhannsdóttir úr Fylki sem sigraði á gólfi. 

Í unglingaflokki drengja var það Jónas Ingi Þórisson úr Ármanni sem var maður mótsins en hann sigraði á gólfi, í stökki, tvíslá og svifrá, en Jónas Ingi varð einnig Íslandsmeistari í fjölþraut í gær. Ágúst Ingi Davíðsson úr Gerplu fékk gull í hringjum og liðsfélagi hans Dagur Kári Ólafsson á bogahesti. 

Hildur Maja Guðmundsdóttir úr Gerplu og Guðrún Edda Min Harðardóttir úr Björk fengu báðar tvenn gullverðlaun í unglingaflokki kvenna. Hildur Maja á stökki og gólfi og Guðrún Edda á tvíslá og slá.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert