Arnar og María sigruðu í víðavangshlaupi

Alls tóku 663 hlauparar þátt í víðavangshlaupi ÍR.
Alls tóku 663 hlauparar þátt í víðavangshlaupi ÍR. mbl.is/Árni Sæberg

Þau Arnar Pétursson úr ÍR og María Birkisdóttir úr FH komu fyrst í mark í árlegu Víðavangshlaupi ÍR sem ræst var í 104. sinn í hádeginu í dag.

663 hlauparar voru skráðir til leiks, þar af 589 í fimm kílómetra hlaup og 74 í 2,7 kílómetra skemmtiskokk, að því er fram kemur á vef ÍR.

Fimm kílómetra hlaupið er jafnframt meistaramót Íslands í fimm kílómetra götuhlaupi.

Arnar Pétursson úr ÍR bar sigur úr býtum í karlaflokki ...
Arnar Pétursson úr ÍR bar sigur úr býtum í karlaflokki þriðja árið í röð og hljóp á tímanum 15:52. mbl.is/Árni Sæberg

Í karlaflokki kom Arnar Pétursson fyrstur í mark sem fyrr sagði og sigraði hlaupið þriðja árið í röð. Tími hans var 15:52 mínútur. Næstu fimm hlauparar í mark voru einnig úr ÍR, þeir Þórólfur Ingi Þórsson, sem sigraði í flokki 40-49 ára karla á 16:16 mínútum, Maxim Sauvageon á 16:25 mínútum, Vignir Már Lýðsson 16:31 mínútum, Vilhjálmur Þór Svansson á 16:42 mínútum og Hlynur Ólason á 17:02 mínútum.

Í kvennaflokki sigraði María Birkisdóttir úr FH á 18 mínútum, á hæla hennar kom Arndís Ýr Hafþórsdóttir úr Fjölni á 18:07 mínútum og ÍR-ingurinn Fríða Rún Þórðardóttir varð þriðja og sigraði jafnframt í aldursflokki 40-49 ára kvenna á 19:07 mínútum.

Sigurvegarar fengu farandbikara til varðveislu auk gjafabréfs frá Macron.

María Birkisdóttir úr FH og Arnar Pétursson úr ÍR. María ...
María Birkisdóttir úr FH og Arnar Pétursson úr ÍR. María sigraði í kvennaflokki og hljóp á 18 mínútum sléttum. Ljósmynd/ÍR
mbl.is