Sögulegur árangur Valgarðs í Slóveníu - myndskeið

Fimleikakappinn Valgarð Reinhardsson vann sér sæti í úrslitum í gólfæfingum á heimsbikarmótinu í áhaldafimleikum sem fram fer í Koper í Slóveníu og stendur yfir fram á sunnudag.

Árangur á heimsbikarmótum telur í baráttunni um sæti á Ólympíuleikunum í Tókíó á næsta ári. Valgarð komst í 8 manna úrslitin í gólfæfingum með því að fá 13,750 í einkunn í gær en það var áttunda besta einkunnin. Hæstur í undanúrslitunum var Milad Karimi frá Kasakstan með 14,650. Martin Bjarni Guðmundsson, sem er að koma upp úr unglingaflokki, varð í 30. sæti með 11,550 í einkunn.

Valgarð skildi meðal annars Evrópumeistara í gólfæfingum eftir fyrir neðan sig en hann er annar íslenski fimleikakarlinn í sögunni til að komast í úrslit á heimsbikarmóti. Aðeins Rúnar Alexandersson hafði afrekað það, þó aldrei í gólfæfingum.

Arnþór Daði Jónasson keppti á bogahesti í gær og varð í 30. sæti með 9,950 í einkunn. Í dag er seinni undanúrslitadagurinn en þá verður keppt í stökki, tvíslá og svifrá. Valgarð skráði sig einmitt í sögubækur íslenskra fimleika þegar hann komst í úrslit í stökki á EM í fyrra.

Valgarð Reinhardsson keppir í úrslitum um helgina.
Valgarð Reinhardsson keppir í úrslitum um helgina. Ljósmynd/FSÍ
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert