Neitaði að deila palli með „svindlara“

Mack Horton neitaði að deila verðlaunapalli með Kínverjanum Sun Yang …
Mack Horton neitaði að deila verðlaunapalli með Kínverjanum Sun Yang í Suður-Kóreu um helgina. AFP

Ástralski sundkappinn Mack Horton neitaði að deila verðlaunapalli með Kínverjanum Sun Yang á HM í sundi sem nú fer fram  í Gwangju í Suður-Kóreu en það er BBC sem greinir frá þessu. Sun Yang tryggði sér sigur í 400 metra skriðsundi á sunnudaginn síðasta en þetta er í fjórða skiptið í röð sem Yang fagnar sigri í greininni á heimsmeistaramóti.

Yang var dæmdur í þriggja mánaða bann árið 2014 fyrir að nota ólögleg efni en Yang var sakaður um að eyðileggja lyfjasýni fyrr á þessu ári og þá neitaði hann að fara í lyfjapróf í vor þar sem hann efaðist um réttindi þess sem átti að taka prófið. „Ég er ósáttur með íþróttafólk sem hefur fallið á lyfjaprófi en fær samt ennþá að keppa,“ sagði Horton í samtali við fjölmiðla.

„Ég er fyrst og fremst pirraður og ég held að allir hérna viti hvers vegna,“ sagði Horton þegar hann var spurður af því hvernig tilfinningin væri að hafa unnið silfur á heimsmeistaramótinu. „Ég þarf ekki að segja mikið, ég sagði allt sem segja þurfti með því að neita að deila pallinum með honum,“ asgði Horton en ummælin hafa fengið misgóðar undirtektir.

Kínverjar eru allt annað en sáttir með Horton og hafa krafið hann um opinbera afsökunarbeiðni á meðan margir standa þétt við bakið á Horton, þar á meðal fyrrverandi liðsfélagi Horton í ástralska landsliðinu, David McKeon. „Frábært að sjá Horton mótmæla lyfjanotkun með því að neita að deila verðlaunapalli með Sun Yang,“ lét McKeon hafa eftir sér á Twitter.

Þá sendi ástralska Ólympíunefndin einnig frá sér yfirlýsingu eftir að kínverska sundsambandið hafði skorað á Ástrali að fordæma ummælin. „Hann hefur talað gegn lyfjamisnotkun í íþróttum og hann hefur rétt á því. Horton hefur barist fyrir þessu lengi og við óskum honum alls hins besta í baráttu sinni,“ segir í yfirlýsingu frá Ólympíunefnd Ástrala.

Margar gamlar sundhetjur styðja þétt við bakið á Mack Horton …
Margar gamlar sundhetjur styðja þétt við bakið á Mack Horton í baráttu hans gegn lyfjamisnotkun í sundi. AFP
mbl.is