„Það var allt á móti mér á þessu ári“

ÍR-ingurinn Guðni Valur Guðnason með kringluna í hendi á Smáþjóðaleikunum …
ÍR-ingurinn Guðni Valur Guðnason með kringluna í hendi á Smáþjóðaleikunum í Svartfjallalandi í sumar þar sem hann keppti einnig í kúluvarpi. Ljósmynd/ÍSÍ

„Maður hlýtur að fá að ferðast aðeins niður í móti eftir þessa bröttu brekku sem árið 2019 var,“ segir Guðni Valur Guðnason, kringlukastari úr ÍR og ólympíufari. Guðni átti besta frjálsíþróttaafrek Íslendinga á árinu 2019 og var eini fulltrúi þjóðarinnar á heimsmeistaramótinu í Doha, en engu að síður var árið að mörgu leyti líkt og martröð fyrir þennan jákvæða og upplitsdjarfa Mosfelling. Hann er staðráðinn í að keppa á sínum öðrum Ólympíuleikum næsta sumar.

„Það fór einhvern veginn allt úrskeiðis sem gat farið úrskeiðis á þessu ári,“ segir Guðni við Morgunblaðið. Hans besti árangur á árinu, og um leið besti árangur Íslendings á árinu, kom í Eistlandi í lok maí þegar hann kastaði kringlunni 64,77 metra. Þeim árangri náði Guðni Valur eftir að hafa legið lengi á sjúkrahúsi og áður en hann meiddist á Smáþjóðaleikunum í júní en þau meiðsli hafa truflað hann síðan.

Úr 205 í 60 kg í bekkpressunni

„Ég var veikur í byrjun árs, fékk lífhimnubólgu og var inni á spítala í mánuð, og mátti ekki gera neitt í einn og hálfan mánuð eftir það. Það var svakalega erfitt að geta ekki æft, sérstaklega þegar það komu eymslalausir dagar þar sem maður fann engan hita eða verki og fannst eins og maður væri orðinn góður, en gat svo ekki gert neitt ef maður reyndi. Til að setja þetta í samhengi þá gat ég lyft 205 kg í bekkpressunni þegar ég veiktist, var alveg við bætingu og get lyft meiru núna, en á næstu æfingu eftir veikindin man ég að ég lyfti 60 kílóum fjórum sinnum, og fannst það erfitt!“ segir Guðni sem er iðinn við að henda á loft hundruðum kílóa enda tröll að burðum.

Sjá viðtal við Guðna Val í heild í  Morgunblaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert