Hörkutólið Hermann Maier

Hermann Maier.
Hermann Maier. Reuters

Viðfangsefni Sögustundar er að þessu sinni ekki mjög langt frá okkur í tíma en óhemju merkilegur íþróttamaður engu að síður. Einn af eftirminnilegri persónuleikum í skíðabrekkunum á síðustu áratugum er austurríski múrarinn Hermann Maier sem vann til gullverðlauna á Ólympíuleikum, heimsmeistaramótum og sigraði fjórum sinnum í heildar-stigakeppni heimsbikarsins báðum megin við aldamótin.

Hápunkturinn á glæsilegum ferli Maiers var væntanlega fyrir tæpum fimmtán árum (þegar greinin var skrifuð) þegar hann vann til tvennra gullverðlauna á Vetrarólympíuleikunum í Nagano í Japan (1998). Þar sigraði hann bæði í risasvigi og stórsvigi þó leiðin að gullpeningunum hafi ekki beinlínis gengið áfallalaust fyrir sig. Nokkrum dögum áður benti fátt til þess að Maier myndi vinna til verðlauna á leikunum þegar Austurríkismaðurinn fékk slæma byltu í brunkeppni leikanna.

Lenti á hálsinum

Hermann Maier skíðaði ekki með hálfum hug þegar hann var kominn af stað í keppni heldur gaf allt í botn. Það varð honum að falli í bruninu í Nagano. Sjónvarpsáhorfendur víða um heim horfðu skelfingu lostnir á imbakassann þegar Maier missti jafnvægið í lausu lofti og flaug hreinlega út úr brautinni. Maier lenti nánast á höfðinu þar sem hann hafði snúist í loftinu, kútveltist nokkra hringi og fór í gegnum tvær öryggisgirðingar. Hraði besta skíðafólks heims í brunkeppnum er oft á tíðum í kringum 150 km á klukkustund og þeir sem sáu hvernig fór fyrir Maier áttu ekki von á öðru en maðurinn væri stórslasaður, hvort sem það var á Traðarstígnum eða í Tókýó. Hið ótrúlega gerðist hins vegar að hörkutólið Hermann Maier gekk óstuddur frá þessu atviki eftir að hafa sleikt sárin í smástund.

Þessi bylta hafði ekki meiri áhrif en svo að hann nældi í tvenn gullverðlaun nokkrum dögum síðar, þau einu sem hann vann á Ólympíuleikum á ferlinum. 

Forsíða tímaritsins Sports Illustrated eftir leikana í Nagano 1998.
Forsíða tímaritsins Sports Illustrated eftir leikana í Nagano 1998.

Ósáttur við útreiðina

„Ég er ekki hetja, en ég er ánægður með önnur gullverðlaun mín,“ var haft eftir Maier í Morgunblaðinu hinn 20. febrúar árið 1998 eftir öruggan sigur hans í stórsviginu. Austurríkismenn höfðu þá ekki unnið sigur í stórsvigi á Ólympíuleikum í fjörtíu og tvö ár. „Ég er enn ósáttur við útreiðina sem ég fékk í bruninu. Það skyggir aðeins á gleðina að hafa ekki náð verðlaunum í þeirri grein einnig,“ sagði Maier ennfremur á þessum tímapunkti en síðar átti kappinn eftir að lenda í enn verri og alvarlegri byltu en þó ekki í brekkunum.

Í ágúst 2001 voru dagar Hermanns Maier nærri því taldir þegar hann lenti í alvarlegu bifhjólaslysi. Maier var þá á heimaslóðum í Austurríki og var að koma af þrekæfingu á undirbúningstímabilinu þegar hann lenti í árekstri við bifreið á hjólinu. Þegar Maier komst undir læknishendur þá var áhyggjuefnið ekki það hvort hann gæti skíðað aftur heldur fyrst og fremst hvort hann myndi geta gengið á ný. Um tíma var útlit fyrir að læknarnir þyrftu að taka af honum hægri fótleginn en eftir flókna aðgerð tókst þeim að bjarga fætinum.

Snéri aftur og sigraði

Sjálfsagt héldu flestir að ferli Maiers væri lokið en þarna var hann á hátindinum og nánast ósigrandi. Hann hafði til að mynda jafnað met Svíans Ingmars Stenmarks um vorið þegar hann náði þrettán sigrum í heimsbikarnum á einu tímabili. Ferli þessa mikla afreksmanns virtist skyndilega vera lokið og hann gat ekki verið á meðal keppenda á Vetrarólympíuleikunum í Salt Lake City árið 2002.

Af alkunnri elju tókst þessu heljarmenni þó að mæta aftur til keppni í janúar árið 2003 eða um það bil einu og hálfu ári eftir slysið. Maier lét það ekki nægja heldur varpaði hálfgerðri sprengju inn í íþróttaheiminn þegar hann sigraði aðeins tveimur vikum síðar í risasvigi á heimsbikarmóti. Ekki skemmdi fyrir að mótið fór fram í Kitzbühel í Austurríki.

Hermann Maier
Hermann Maier Reuters

Vann aftur til verðlauna á ÓL

Bifhjólaslysið hafði eins og gefur að skilja mikil áhrif á feril Hermanns Maiers en honum tókst þrátt fyrir allt að sigra í samanlagðri keppni heimsbikarsins árið 2004. Almenn er sú skoðun í íþróttaheiminum að fáir íþróttamenn hafi unnið annað eins afrek eftir jafn alvarlegt áfall. Maier mætti til leiks á Ólympíuleikunum í Tórínó árið 2006, þá 34 ára, og fór ekki tómhentur heim. Hann vann til silfurverðlauna í risasvigi og til bronsverðlauna í stórsvigi.

Stytta reist í heimabænum

Maier fæddist 7. desember árið 1972 í Salzburg í Austurríki. Hann tilkynnti að hann væri hættur keppni haustið 2009 og var þá á 37. aldursári en hafði þó ekki keppt nema í þrettán ár í heimsbikarnum því hann sló ekki í gegn fyrr en hann var 24 ára. Maier er þjóðhetja í Austurríki og samborgarar hans í heimabænum Flachau hafa reist af honum mannhæðarháa styttu fyrir utan íþróttamiðstöð bæjarins. Björn Arnar umbrotsmaður hefur farið að þessari myndarlegu styttu til þess að votta goðinu virðingu sína en Maier rekur einnig skíðaskóla í Flachau sem er í 70 km fjarlægð frá Salzburg.

Tilfinningarnar brutust fram hjá Maier á blaðamannafundi þegar hann tilkynnti …
Tilfinningarnar brutust fram hjá Maier á blaðamannafundi þegar hann tilkynnti að hann væri hættur keppni í október árið 2009. Reuters

„Nafni“ Eyjamanns

Þegar Maier kom fram á sjónarsviðið í öllu sínu veldi fékk hann viðurnefnið „The Herminator“ en um svipað leyti gáfu breskir fjölmiðlamenn Hermanni Hreiðarssyni, knattspyrnumanni frá Vestmannaeyjum, þetta sama viðurnefni. Töldu margir fjölmiðlamenn að báðir þessir menn borðuðu glerbrot í morgunverð. Eftir velgengni Maiers á leikunum í Nagano árið 1998 var honum boðið í þáttinn til hins kunna bandaríska sjónvarpsþáttastjórnanda Jay Leno. Var það vel til fundið hjá Leno því í þáttinn bauð hann öðrum Austurríkismanni, Arnold Schwarzenegger, vaxtarrækarkempu, kvikmyndaleikara og stjórnmálamanni. Hittust þar „The Herminator“ og „The Terminator.“

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu hinn 24. desember 2012

 

 

mbl.is