Hæfileikabúntið Herschel Walker

Walker í leik með með Dallas Cowboys í NFL-deildinni.
Walker í leik með með Dallas Cowboys í NFL-deildinni. Ljósmynd/AP

Íþróttamaðurinn Herschel Walker segist vera að íhuga framboð til öldungadeildar Bandaríkjaþings á næsta ári. Hvort sem Walker kemur til með að skipta sér af stjórnmálum eða ekki þá er alla vega ljóst að hann er ekkert venjulegt eintak af íþróttamanni.

„Væri ekki frábært ef goðsögnin Herschel Walker myndi gefa kost á sér til öldungadeildar Bandaríkjaþings fyrir Georgíu. Hann yrði óstöðvandi rétt eins og hann var þegar hann spilaði með Georgia Bulldogs og í NFL. Hann er auk þess frábær persóna,“ skrifaði fráfarandi forseti Donald Trump í stuðningsyfirlýsingu. Walker hefur dýft tánni ofan í sundlaug stjórnmálanna því hann er í nefnd er tengist íþróttum og lýðheilsumálum sem skipuð er af forsetaembættinu. Þar hefur hann átt sæti frá árinu 2018. 

Herschel Walker er alla jafna nefndur sem einn allra besti leikmaður sem fram hefur komið í ameríska fótboltanum í háskóladeildinni NCAA og var hann á All American þrjú ár í röð. Vann hann hin eftirsóttu Heisman-verðlaun árið 1982. Vangaveltum um hvort hann muni bjóða sig fram í pólitíkinni hafa fylgt brandarar og orðaleikir sem tengjast því að hlaupa. Enska orðið run er jú bæði notað um að hlaupa sem og að fara í framboð í stjórnmálum. 

Walker fæddist 3. mars árið 1962 í Wrightsville í Georgíu og er því suðurríkjamaður. Hann keppti fyrir University of Georgia og er því vel kynntur og vinsæll í ríkinu. Hann keppti einnig í spretthlaupum fyrir skólann en árangur hans í frjálsum í menntaskóla var virkilega góður. Á háskólaárunum átti hann 10,23 sekúndur í 100 metra hlaupi. 

NFL-ferillinn stóð yfir frá 1986 til 1997 og lék Walker með Dallas Cowboys, Minnesota Vikings, Philadelphia Eagles, New York Giants og aftur með Dallas á ferlinum. 

Hafnaði í 7. sæti á Vetrarólympíuleikum

Fyrir flesta væri alveg nóg að hafa keppt í tveimur íþróttagreinum í NCAA og eiga svo atvinnumannaferil í meira en áratug í erfiðri deild eins og NFL. En það reyndist ekki nóg fyrir Herschel Walker. Alls ekki nóg. 

Árið 1992 þegar Walker var enn á fleygiferð í NFL þá tók hann upp á því að keppa á Vetrarólympíuleikunum í Albertville. Eins og menn gera. Walker var valinn til að keppa fyrir Bandaríkin í keppni á bobsleða en eins og aðdáendur kvikmyndarinnar Cool Runnings þekkja mætavel getur verið akkur í því að vera með sprettharða menn í því að ýta sleðanum af stað áður en hoppað er um borð. Til stóð að Walker myndi keppa á fjögurra manna sleða en úr varð að hann keppti á tveggja manna sleða. Walker og Brian Shimer náðu sjöunda sæti á leikunum 1992.  

Herschel Walker á Vetrarólympíuleikunum í Albertville í Frakklandi.
Herschel Walker á Vetrarólympíuleikunum í Albertville í Frakklandi. Ljósmynd/AP

Walker gat fundið sér eitt og annað til að glíma við og dreifa huganum. Meðfram því að vera atvinnumaður í amerískum fótbolta og ólympíufari þá tókst honum einhvern veginn að ná sér í svarta beltið í taekwondo. 

Walker lét sér fátt ef nokkuð fyrir brjósti brenna. Þegar ferill hans í NFL stóð sem hæst þá læt hann sér ekki muna um að dansa ballett og mun hafa gert það með glæsibrag. Þar var ekki um lítið átthagafélag að ræða heldur hafði Fort Worth-balletinn í Texas sóst eftir kröftum Walkers. 

Walker tók þátt í einni sýningu í apríl árið 1988 og tróð upp með Fort Worth ballettinum fyrir framan 1.500 áhorfendur. Þetta upptæki dansflokksins að fá leikmann Dallas Cowboys til að taka þátt í sýningu vakti talsverða athygli og skrifaði stórblaðið New York Times til að mynda grein um málið. Þegar sullað er saman leikmanni úr NFL, ballettdönsurum, klassískum hljóðfæraleikurum og 75 ára gömlu verki eftir virt tónskáld hlýtur útkoman að verða í það minnsta athyglisverð. 

Herschel Walker á sviði með Fort Worth-balletinum.
Herschel Walker á sviði með Fort Worth-balletinum. Ljósmynd/AP

Walker fékk fína dóma í umfjöllun New York Times. Liprari ballettdansara var vissulega hægt að finna í Bandaríkjunum en líkamlegir burðir hans komu að góðum notum þegar hann lyfti ballerínu auðveldlega í miðju atriði. Þau sem dönsuðu með honum í sýningunni báru honum vel söguna og létu þess getið hversu fljótur hann hefði verið að tileinka sér það sem fyrir hann var lagt.

Í greininni kom fram að árslaun Walkers hjá Dallas Cowboys væru liðlega 2/3 af þeirri upphæð sem Fort Worth ballettinn hafði úr að spila á hverju ári. 

Ósigraður í blönduðum bardagalistum

Eins og hér hefur verið tínt til þá var Walker atvinnumaður í amerískum fótbolta, var á landsmælikvarða í frjálsum, ólympíufari á Vetrarólympíuleikum og með svarta beltið í taekwondo. Væntanlega hefur það verið nóg fyrir manninn til að svala þörf sinni sem keppnismaður í íþróttum?

Nei reyndar ekki. Tilkynnt var í nóvember árið 2007 að Herschel Walker hefði samþykkt að taka þátt í raunveruleikaþætti í blönduðum bardagaíþróttum, MMA, ásamt hafnaboltastjörnunni Jose Canseco. Í því fólst að í lok þáttanna áttu þeir hvor um sig að keppa í formlegum MMA bardaga. Þróaðist þetta út í að Walker gerði tilraun til að keppa í MMA en í september árið 2009 var tilkynnt að Walker hefði gert samning um að gerast atvinnumaður í MMA, þá 47 ára gamall. 

Við tóku æfingabúðir í Kaliforníu í tólf vikur. Svo fór að Walker keppti tvívegis í þungavigt í blönduðum bardagalistum og auðvitað vann okkar maður báða bardagana, tæplega fimmtugur. 30. janúar árið 2010 vann hann Greg Nagy og ári síðar vann hann Scott Carson.

Nú gæti einhver haldið að fyrrverandi fótboltamaður hafi látið til leiðast að láta loka sig inni í búri með vel þjálfuðum bardagaköppum vegna þess að hann hafi sólundað því fé sem hann aflaði í NFL og hafi verið blankur. Svo virðist hins vegar ekki vera því féð sem Walker aflaði í fyrri bardaganum gaf hann allt til góðgerðamála. Herchel Walker virðist einfaldlega ekki standast freistinguna ef við honum blasir ný áskorun sem hann telur sig geta staðist.

Rífur ekki í lóðin

Herschel Walker vakti athygli á sínum ferli fyrir líkamlegt atgervi. Ekki einungis í NFL heldur einnig þegar hann keppti í MMA á virðulegum aldri. Walker segist ekki hafa verið mikill íþróttamaður í uppvextinum. Hann hafi verið of þungur og alist upp í talsverðum félagslegum mótbyr. Mátti til dæmis þola stríðni vegna talgalla. 

Walker tók til sinna ráða og byggði upp líkamann. Hann fór að gera armbeygjur og magaæfingar á hverjum degi. Hann hélt sig við það og með árunum urðu þær fleiri og fleiri. Þegar mest lét segist Walker hafa gert 3.500 armbeygjur og 3.500 magaæfingar á hverjum einasta degi. Sem afreksþróttamaður vildi hann gera æfingar þar sem hann notaðist við eigin líkamsþyngd og gerði lítið sem ekkert af því að lyfta lóðum. 

Herschel Walker í búrinu í MMA.
Herschel Walker í búrinu í MMA. Ljósmynd/AP

Walker segist ekki vera mótfallinn því að íþróttamenn lyfti lóðum en er þeirrar skoðunar að ekki sé hjálplegt að lyfta of miklum þyngdum fyrir hinn almenna íþróttamann. Heppilegra sé að hafa minni þyngdir og lyfta þeim oftar. 

Herschel Walker hlýtur að fara í flokk með fjölhæfustu íþróttamönnum sem fram hafa komið og í raun ótrúlegt eintak af íþróttamanni. Í Sögustundinni hefur verið fjallað um fleiri óvenjufjölhæfa íþróttamenn á síðustu árum eins og Milfred Didrikson Zaharias og Eddie Eagan.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert