Magnaður miðvikudagur

Anton Sveinn McKee átti ótrúlegan gærdag.
Anton Sveinn McKee átti ótrúlegan gærdag. Ljósmynd/Simone Castrovillari

Anton Sveinn McKee átti hreint út sagt frábæran dag á Evrópumeistaramótinu í 25 metra laug í Glasgow í gær. Hann stakk sér þrisvar til sunds í 50 metra bringusundi, setti Íslandsmet í öll skiptin og hafnaði í sjöunda sæti í greininni þegar upp var staðið.

Ársgamalt met Antons sem hann setti á heimsmeistaramótinu í Hongzhou í Kína í desember 2018 var 26,74 sekúndur. Það féll í undanrásunum í gærmorgun þar sem Anton náði sjötta besta tímanum á nýju Íslandsmeti, 26,43 sekúndum. Anton varð sjötti í undanrásunum og fór auðveldlega áfram en sextán bestu komust í undanúrslit.

Þar var synt síðdegis í gær og aftur sýndi Hafnfirðingurinn styrk sinn. Hann bætti metið á ný, og varð að gera það til að komast í úrslitasundið. Anton synti á 26,28 sekúndum, var 6/100 úr sekúndu á eftir næsta manni og var áttundi og síðastur inn í úrslitin. Í úrslitasundinu ríflega klukkutíma síðar var Anton enn ferskur og klár í slaginn. Hann bætti metið enn, synti á 26,14 sekúndum og endaði í sjöunda sæti í greininni. Vladimir Morozov frá Rússlandi sigraði með yfirburðum á 25,51 sekúndu, sem er Evrópumet í greininni.

Anton mætir á ný í laugina í Glasgow í dag þegar hann keppir í 200 metra bringusundi. Keppni hefst klukkan 9.58 að íslenskum tíma og Anton er í fjórða og síðasta riðli, í þeim sterkasta.

Hann keppir síðan í þriðja og síðasta sinn á mótinu á morgun og þá í 100 metra bringusundi.

Eygló komst ekki áfram

Eygló Ósk Gústafsdóttir keppti í 100 metra baksundi á mótinu í Glasgow í gær. Hún hafnaði í 24. sæti í undanrásunum á 1:00,38 mínútum og komst því ekki áfram en fjögurra ára gamalt Íslandsmet hennar í greininni er 57,42 sekúndur. Eygló á eftir að keppa í 200 metra og 50 metra baksundi á morgun og laugardag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert