Katrín Tanja sleppti fyrstu greininni í Dúbaí

Katrín Tanja Davíðsdóttir lenti í vandræðum í sjósundi í Dúbaí …
Katrín Tanja Davíðsdóttir lenti í vandræðum í sjósundi í Dúbaí í fyrstu keppnisgrein Dubai CrossFit Championship sem hófst í dag. Ljósmynd/Instagram

Katrín Tanja Davíðsdóttir, einn sigursælasti crossfit-keppandi heims, neyddist til að sleppa fyrstu keppnisgreinni á Dubai CrossFit Championship-mótinu sem hófst í dag vegna bakmeiðsla.

Greinin samanstóð af tæplega 50 kg sandpokum sem keppendur þurftu að lyfta yfir öxlina 20 sinnum og 150 metra sjósundi. Æfinguna þurfti að endurtaka þrisvar sinnum. 

Katrín Tanja situr því í 25. og neðsta sæti í kvennaflokki með 0 stig. Morning Chalk Up greinir frá bakmeiðslum Katrínar Tönju, sem hún fékk á æfingu í síðustu viku. Hún getur samt sem áður haldið áfram keppni kjósi hún að gera það. 

Aðstæður voru ekki sem bestar en keppni hófst seinna en áætlað var sökum úrkomu. Aðeins tvær af 25 konum náðu að klára greinina innan 15 mínútna tímamarka. Emma Tall frá Svíþjóð er í fyrsta sæti og Julie Hougard frá Danmörku er í efstu tveimur sætunum. 

Sara og Björgvin í 3. sæti

Fjórir íslenskir keppendur taka þátt á mótinu í ár, sem er ein af undankeppnum fyrir heimsleikana í ágúst. Sara Sigmundsóttir er í 3.-7. sæti eftir fyrstu grein og Oddrún Eik Gylfadóttir í 8. sæti. Björgvin Karl Guðmundsson er í 3. sæti í karlaflokki á eftir Jonne Koski og Brent Fikowski sem voru einu karlarnir sem náðu að ljúka umferðunum þremur. 

Keppni lýkur á laugardag og ljóst er að Katrín Tanja á verðugt verkefni fyrir höndum. 

Hér má fylgjast með fyrstu keppnisgreininni. Fyrstu riðill kvennanna byrjar í kringum 1:40:00, annar í kringum 2:00:00 og þriðji á 2:25:00 þar sem Sara var á meðal keppenda: 

Uppfært klukkan 13:20: Í fyrstu sagði að Katrín Tanja hefði hætt keppni í fyrstu greininni en hið rétta er að hún ákvað að taka ekki þátt í fyrstu greininni sökum bakmeiðsla. Beðist er velvirðingar á þessu. 

mbl.is