Veit eiginlega ekki hvernig við fórum að þessu

Ungverjarnir stöðva Alexander Petersson í leiknum í kvöld.
Ungverjarnir stöðva Alexander Petersson í leiknum í kvöld. Ljósmynd/Einar Ragnar Haraldsson

Péter Hornyák, hægri hornamaður ungverska landsliðsins í handknattleik, kvaðst hreinlega ekki vita hvað gerðist hjá liðinu í seinni hálfleiknum gegn Íslandi í kvöld þegar það sneri blaðinu við og vann sex marka sigur, 24:18, í leik liðanna á Evrópumótinu í Malmö.

„Ég veit ekki hvað ég á að segja. Þetta er ólýsanlegt. Ég er svo glaður og svo stoltur af liðinu mínu. Fyrir leikinn töluðu allir um að Ísland væri með betra lið en við. En við sýndum öllum að við getum spilað handbolta,“ sagði Hornyák við danska netmiðilinn hbold.dk.

„Ég veit eiginlega ekki hvernig við fórum að þessu en við unnum. Nú verðum við bara að sjá hvað við getum gert. Fyrir okkur er hver leikur bónus. Ég veit ekki hvað skal segja. Við komum hingað með það að markmiðið að spila góðan handbolta. Nú erum við með fimm stig eftir þrjá leiki og erum á lífi í keppninni. Við erum bara glaðir,“ sagði Hornyák og brosti breitt en hann er 24 ára gamall leikmaður Tatabánya í Ungverjalandi og í hópi elstu leikmanna liðsins sem er það yngsta sem tekur þátt í lokakeppni EM.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert