Ekki refsað fyrir drykkju

Kristján Andrésson, landsliðsþjálfari Svía, varð fyrir vonbrigðum með sína menn.
Kristján Andrésson, landsliðsþjálfari Svía, varð fyrir vonbrigðum með sína menn. AFP

Fjórir sænskir landsliðsmenn í handbolta hafa beðist afsökunar á því að hafa setið við drykkju á bar í miðbæ Malmö í gærkvöldi. Svíþjóð er með Íslandi í milliriðli á EM í handknattleik og mætir Portúgal í fyrsta leik sínum í þeim riðli annað kvöld.

Samkvæmt sænskum fjölmiðlum pöntuðu leikmennirnir Jim Gottfridsson, Andreas Nilsson, Kim Ekdahl Du Rietz og Lukas Nilsson sér áfenga drykki á bar í Malmö. Þar sá fjöldi fólks þá og virtust leikmennirnir ekki reyna að fela drykkju sína.

Jan Karlsson, liðsstjóri sænska hópsins á Evrópumótinu, segir að leikmönnunum verði ekki refsað vegna athæfisins en leikmenn þurfa leyfi til að drekka áfengi á stórmótum.

„Ég er vonsvikinn,“ sagði Kristján Andrésson, landsliðsþjálfari Svía. 

„Leikmennirnir báðu hópinn afsökunar og hétu því að þetta myndi ekki endurtaka sig. Við höfum rætt við leikmennina í einrúmi og í hóp,“ sagði Kristján og bætti við að núna myndu Svíar einbeita sér að leikjunum fram undan.

mbl.is