Ísland leikur til úrslita

Úr leik Íslands og Nýja-Sjálands á fimmtudaginn.
Úr leik Íslands og Nýja-Sjálands á fimmtudaginn. Ljósmynd/Sveinn Björnssön

Strákarnir í 20 ára landsliði Íslands í íshokkí eru komnir í úrslit 3. deildar heimsmeistaramótsins í þessum aldursflokki í Búlgaríu eftir 5:2-sigur á Tyrklandi í undanúrslitunum í kvöld. Þar mæta þeir liði Ástralíu sem vann Mexíkó í hinum undanúrslitaleiknum.

Ísland komst yfir á 17. mínútu þökk sé marki Halldórs Skúlasonar en Tyrkir jöfnuðu metin 40 sekúndum síðar með marki frá Firat Afsin. Það var svo í öðrum leikhluta sem strákarnir léku á als oddi. Axel Orongan kom Íslandi yfir á annarri mínútu leikhlutans og Sölvi Atlason bætti við marki átta mínútum síðar. Axel og Sölvi skoruðu svo báðir annað mark á 35. og 36. mínútu, staðan orðin ansi vænleg.

Tyrkir klóruðu í bakkann í þriðja og síðasta leikhluta með marki Ismet Gokcen undir lok leiks og lokatölur því 5:2. Ísland mætir því Ástralíu í úrslitaleik um fyrsta sætið á sunnudaginn en Mexíkó og Tyrkland spila um þriðja sætið.

mbl.is