Gamlar kempur gætu mæst í þriðja sinn

Mike Tyson var á sínum tíma einn sá allra besti.
Mike Tyson var á sínum tíma einn sá allra besti. AFP

Gömlu hnefaleikakempurnar Mike Tyson og Evander Holyfield virðast ætla að mætast í hringnum í þriðja sinn þrátt fyrir að vera báðir komnir á sextugsaldurinn. Þeir mættust síðast 1997 í einum umdeildasta bardaga sögunnar.

Báðir hafa verið heimsmeistarar í þungavigt en Holyfield vann titilinn af Tyson í frægum bardaga árið 1996 og ári síðar mættust þeir aftur í furðulegu einvígi. Bardaginn átti að vera einvígi aldarinnar milli tveggja bestu boxara heims en varð í raun hneyksli aldarinnar eftir að Tyson var dæmdur úr keppni fyrir að bíta Holyfield í bæði eyrun en slíkt atvik átti sér ekkert fordæmi í hnefaleikasögunni.

Holyfield var í samtali við hlaðvarpið The 3 Point Conversation og staðfesti þar að kapparnir eru í viðræðum um að mætast í þriðja sinn. „Hans fólk er að tala við mitt fólk, við höfum ekki komist að neinu samkomulagi en við erum að tala saman,“ sagði Holyfield. Kappinn er orðinn 57 ára og Tyson er 53 og því ólíklegt að um hefðbundinn bardaga verði að ræða.

„Ég vil byrja að keppa til sýnis, fyrir góðgerðarsöfnuðinn minn, og hjálpa ungum krökkum í vanda,“ bætti Holyfield við en hann mætti Mitt Romney, fyrrverandi forsetaframbjóðanda Bandaríkjanna, í slíkum bardaga í góðgerðarskyni árið 2015.

Evander Holyfield.
Evander Holyfield. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert