Heimsmeistari lést á sjúkrahúsi - 27 ára að aldri

Lara van Ruijven var í fremstu röð í heiminum í …
Lara van Ruijven var í fremstu röð í heiminum í skautahlaupi. AFP

Lara van Ruijven, heimsmeistari í skautahlaupi frá Hollandi, er látin eftir að hafa veikst snögglega fyrir stuttu og legið skamma hríð á sjúkrahúsi í Frakklandi. 

Þetta kemur fram í hollenska netmiðlinum Telegraaf sem segir að van Ruijven hafi verið í dái síðan 29. júní. Hún hafi verið lögð inn á sjúkrahúsið 25. júní eftir að hafa veikst snögglega í æfingabúðum í franska hlutanum af Pýreneafjöllunum en um hafi verið að ræða slæmt afbrigði af sjálfsónæmi (e. autoimmune).

Lara van Ruijven er ríkjandi heimsmeistari í 500 metra skautahlaupi kvenna og vann bronsverðlaun með sveit Hollands á vetrarólympíuleikunum 2018. Hún hefur verið búsett í Heerenveen frá 17 ára aldri en þar er aðal skautamiðstöð Hollendinga.

mbl.is