Sögulegur sigur eftir ótrúlegan gærdag

Tadej Pogacar í gulu treyjunni eftir þrjár vikur þar sem …
Tadej Pogacar í gulu treyjunni eftir þrjár vikur þar sem hjólað er um sveitir Frakklands. AFP

Frakklandshjólreiðunum, Tour de France, stærstu götuhjólakeppni heims, lauk í dag eftir 21 keppnisdag og tvo hvíldardaga þegar keppendurnir hjóluðu Ódáinsvelli (Champs-Élysées breiðstrætið) fram og aftur á lokadeginum, líkt og hefð er fyrir.

Fyrir næst síðasta daginn höfðu flestir bókað að Slóveninn Primož Roglič tæki sigurinn í ár eftir að hafa verið mjög sannfærandi alla keppnina, en landi hans, hinn 21 árs gamli Tadej Pogačar, átti líklega einhverja mögnuðustu frammistöðu á hjólabrautinni í manna minnum og tók sigurinn í gær, á næst síðustu dagleiðinni. Vann hann þar með heildarkeppnina (gulu treyjuna) í ár og í dag hjólaði Pogačar fagnandi ásamt liðsfélögum sínum um stræti Parísar.

Tadej Pogacar fagnaði í dag sigrinum með liðsfélögum sínum í …
Tadej Pogacar fagnaði í dag sigrinum með liðsfélögum sínum í UAE Emirates-liðinu, AFP

Roglič hjólar fyrir liðið Team Jumbo Visma, sem var talið sem annað af tveimur líklegustu liðunum til að vinna keppnina í ár. Sýndi liðið nokkra yfirburði flesta daga keppninnar og virtist lítið ætla að koma í veg fyrir sigur Roglič eftir að hann stakk helstu mótherja í heildarkeppninni af á tólftu dagleið.

Pogačar, sem hjólar fyrir liðið UAE-Team Emirates, gafst hins vegar ekki upp og meðan aðrir líklegir mótherjar þeirra Roglič duttu út sem mögulegir sigurvegarar hver af öðrum fylgdi Pogačar Roglič eftir hverja dagleiðina á fætur annarri þangað til komið var að næst síðustu dagleiðinni. Það var hins vegar ekki venjuleg götuhjóladagleið heldur svokölluð tímataka, en þá ræsir bara einn í einu og er tími tekinn á ákveðinni vegalengd fyrir hvern og einn í stað þess að hjólað sé saman í hóp.

Þrír efstu keppendurnir á 17. dagleið í lokavikunni. Frá vinstri …
Þrír efstu keppendurnir á 17. dagleið í lokavikunni. Frá vinstri Miguel Angel Lopez, Tadej Pogacar og Primoz Roglic, auk þess sem liðsfélagi Roglic, Sepp Kuss keyrir upp hraðann fremst. AFP

Roglič hefur hingað til þótt sterkur í þeirri grein og var þegar þarna var komið til sögu með 57 sekúnda forystu á Pogačar og töldu flestir að það ætti að duga honum og gott betur en það. Var það skoðun flestra, jafnvel þó Pogačar hefði fyrr í sumar einmitt unnið Slóveníumeistaramótið í tímatöku þar sem hann keppti einmitt á móti Roglič. Forysta Roglič fyrir þessa dagleið þótti hins vegar það mikil að honum ætti ekki að geta verið ógnað, jafnvel þótt Pogačar tæki af honum nokkrar sekúndur.

Tímatökubrautin var nokkuð flöt fyrstu 30 kílómetrana, en svo tók við tæplega 7 kílómetra brekka með nokkrum mjög bröttum köflum. Brugðu meðal annars margir á það ráð að fara af sérsmíðuðum tímatökuhjólum og yfir á hefðbundin götuhjól rétt eftir að brekkan hófst til að vera á léttari hjólum í staðinn fyrir kosti tímatökuhjóla til að vinna á loftmótstöðu, sem er mjög stór þáttur í hjólreiðum, ekki síst í tímatöku.

Pogacar tók fyrri hluta brautarinnar á svokölluðu tímatökuhjóli. Þá liggur …
Pogacar tók fyrri hluta brautarinnar á svokölluðu tímatökuhjóli. Þá liggur hann fram á stýrið líkt og sjá má á myndinni, en með því minnkar loftmótstaðan. AFP

Strax í byrjun var ljóst að Pogačar ætlaði sér að gefa allt í þessa tímatöku. Roglič var ræstur tveimur mínútum á eftir honum, en í útsendingunni var gefinn upp rauntími á þeim báðum þar sem hægt var að fylgjast með hversu mikið þeir voru á undan eða eftir hvor öðrum. Fór Pogačar hægt og rólega, en þó öruggt, að minnka forskot Roglič og þegar kom að brekkunni var forskotið orðið að litlu sem engu. Töldu margir að þetta væri planið hjá Roglič og að hann hefði verið að spara sig fyrir brekkuna.

Þessi svipur hjá Pogacar segir allt sem segja þarf um …
Þessi svipur hjá Pogacar segir allt sem segja þarf um þau átök áttu sér stað í tímatökunni. AFP

Svo reyndist hins vegar ekki og Pogačar hélt áfram að á ofur hraða upp brekkuna líkt og hann hafði verið á sléttunni á undan. Síðustu sekúndurnar sem Roglič hafði í forskot gufuðu upp og Pogačar fór að byggja upp eigið forskot.

Primoz Roglic var alveg búinn eftir tímatökuna og gat ekki …
Primoz Roglic var alveg búinn eftir tímatökuna og gat ekki leynt vonbrigðum sínum að hafa misst niður forystuna til Pogacar. AFP

Að lokum stóð hann uppi með 59 sekúnda forskot. Honum hafði sem sagt tekist að vera 1 mínútu og 56 sekúndum á undan Roglič og 1 mínútu og 21 sekúndu á undan næsta manni. Það verður því ekki sagt að Roglič hafi endilega átt mjög slæman dag í gær, heldur átti Pogačar líklega besta keppnisdag ævinnar.

Roglic óskar Pogacar til hamingju með sigurinn á síðustu dagleiðinni, …
Roglic óskar Pogacar til hamingju með sigurinn á síðustu dagleiðinni, en hefð er fyrir því að keppendur í heildarkeppninni geri ekki atlögu að forystu efsta manns þann dag og er dagurinn notaður til að fagna. AFP

Síðasti keppnisdagur Frakklandshjólreiðanna voru svo í dag um Ódáinsvelli í París. Leiðin er mjög flöt og er keppnin helst á milli þeirra sem flokkast sem spretthjólreiðamenn, en slíkir hjólreiðamenn eru ólíklegir til að vinna heildarkeppnina, þó þeir keppi sín á milli um sigur á flötum dagleiðum. Hefð er fyrir því að sá keppandi í heildarkeppninni sem sé efstur fyrir lokadaginn fái að fagna sigrinum í París og er almennt ekki gerð atlaga að forystu hans. Það átti við í dag og gat Pogačar fagnað vel ásamt liðsfélögum sínum í UAE-Team Emirates.

Með sigrinum varð Pogačar fyrstur í tæplega 40 ár til þess að vinna Frakklandshjólreiðarnar í sinni fyrstu tilraun. Hann er þó ekki alveg óvanur stórum mótum, því í fyrra varð hann annar í Spánarhjólreiðunum (Vuelta a España), en það er einnig þriggja vikna keppni líkt og Frakklandshjólreiðarnar.

Hvað er meira franskt en hjólreiðamenn í Frakklandshjólreiðunum að hjóla …
Hvað er meira franskt en hjólreiðamenn í Frakklandshjólreiðunum að hjóla í átt að Sigurboganum með franska fánann skrifaðan í skýin? AFP
Mögulega er meira franskt að hjóla á torginu við Lourve …
Mögulega er meira franskt að hjóla á torginu við Lourve safnið. AFP



Í stórkeppnum sem þessum er ekki aðeins keppt í heildarkeppninni, því það að vinna dagleið í Frakklandshjólreiðunum er afrek út af fyrir sig. Þá eru þrjár aðrar keppnir innan Frakklandshjólreiðanna; sprettkeppni (græna treyjan), klifurkeppni (doppótta treyjan) og besti ungi hjólreiðamaðurinn (hvíta treyjan). Pogačar tókst að vinna þrjár dagleiðir í ár og endaði hann með að taka líka doppóttu og hvítu treyjurnar. Er það í fyrsta skipti síðan 1969 sem einhverjum tekst slíkt afrek.

Írinn Sam Bennett varð efstur í sprettkeppninni og hlaut grænu …
Írinn Sam Bennett varð efstur í sprettkeppninni og hlaut grænu treyjuna fyrir. AFP

Í sprettkeppninni var einnig talsverð spenna lengst af í keppninni, en þar náði Írinn Sam Bennett að landa heildarsigri og innsiglaði hann það með að vinna síðustu dagleiðina í dag í París. Hafði hann att kappi við Slóvakann Peter Sagan lengst af, en Sagan hefur unnið grænu treyjuna samtals sjö sinnum, oftar en nokkur annar. Bennett var þó sterkastur þegar uppi var staðið og fer heim með tvo sigra á dagleiðum og grænu treyjuna.

Greinin var upphaflega birt á Hjólafréttum.

Þrír efstu í heildarkeppninni, Tadej Pogacar fyrir miðju, Primoz Roglic …
Þrír efstu í heildarkeppninni, Tadej Pogacar fyrir miðju, Primoz Roglic í öðru sæti til vinstri og Richie Porte í þriðja sæti til hægri. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert