Klopp um Raducanu: „Hæfileikakona aldarinnar“

Emma Raducanu himinlifandi með verðlaunagripinn sem hún hlaut fyrir sigur …
Emma Raducanu himinlifandi með verðlaunagripinn sem hún hlaut fyrir sigur á Opna bandaríska meistaramótinu. AFP

Enska tenniskonan Emma Raducanu heldur áfram að sanka að sér aðdáendum eftir að hún vann magnaðan sigur gegn hinni kanadísku Leyluh Fernandez á Opna bandaríska meistaramótinu um helgina. Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri enska félagsins Liverpool, er einn þeirra.

Raducanu er aðeins 18 ára gömul, tapaði ekki setti á mótinu og er fyrsti tennisleikarinn í sögu Opins meistaramóts sem vinnur slíkt eftir að hafa komist á það í gegnum undankeppni. Keppinautur hennar, Fernandez, er aðeins 19 ára gömul.

„Ég horfði á úrslitaleikinn og ég var virkilega hrifinn. Það er langt síðan ég horfði á heilan tennisleik en krafturinn og hraðinn í öllum leiknum vakti hrifningu mína.

Tennis kvenna er augljóslega á frábærum stað í augnablikinu,“ sagði Klopp á blaðamannafundi fyrir leik Liverpool gegn AC Milan í Meistaradeild Evrópu annað kvöld.

„Það sem þessar tvær stúlkur, 18 og 19 ára, sýndu í leiknum var afskaplega áhrifamikið, en einnig þegar þær fengu verðlaunagripi sína á meðan verðlaunaafhendingunni stóð, þá veitti það manni satt að segja innblástur hvernig þær töluðu.

Það var jafnvel meira hvetjandi en leikurinn sjálfur, sem veitti manni nógu mikinn innblástur. Ég átti ekki til orð yfir því hvernig þær komu fyrir. Fernandez var augljóslega svekkt og Emma sýndi henni afar mikla virðingu,“ bætti hann við.

Eitthvað það indælasta sem ég get ímyndað mér

Klopp sagði þær báðar augljóslega eiga framtíðina fyrir sér. „Þær voru meðvitaðar um að þær munu mætast oft í framtíðinni og taka þátt í fjölda úrslitaleikja. Ég vonast eftir því að það verði að veruleika hjá þeim.

Þetta var frábært dæmi um íþróttamennsku og anda afreksíþrótta, hve mikla auðmýkt hægt er að sýna þegar þú ert á þessum unga aldri en samt í fremstu röð í heiminum.“

Jürgen Klopp sparaði ekki stóru orðin þegar hann ræddi um …
Jürgen Klopp sparaði ekki stóru orðin þegar hann ræddi um Raducanu. AFP

Hann benti á að Raducanu væri vitanlega hæfileikarík en að ekkert komi af sjálfu sér og að hún virtist fullmeðvituð um það. „Þegar þú ert 18 ára og vinnur Opna bandaríska er það einungis mögulegt ef þú hefur lagt hart að þér.

Hún er svo sannarlega hæfileikakona aldarinnar, en án mikillar vinnu er ekki mögulegt að vera þarna og áorka því sem hún gerði.“

Klopp hrósaði einnig sérstaklega leikgleðinni sem skein úr andliti hennar. „Þarna var hún mætt og maður sá hana brosandi á meðan leiknum stóð, það er eitthvað það indælasta sem ég get ímyndað mér. Það er alveg ljóst að ég mun horfa miklu meira á tennis kvenna en ég hef gert undanfarin ár,“ sagði hann að lokum.

mbl.is