Tilbúin að keppa aftur fljótlega

Naomi Osaka.
Naomi Osaka. AFP

Hin sigursæla japanska tenniskona Naomi Osaka kveðst tilbúin til að snúa aftur til keppni eftir að hafa tekið sér frí frá íþróttinni vegna of mikils álags.

Hún sagði fyrr í þessum mánuði, eftir að hafa fallið út í þriðju umferð Opna bandaríska mótsins að hún ætlaði að taka sér hvíld vegna of mikils álags og verður ekki með á móti sem fram fer í október í Indian Wells. Í maí dró hún sig úr keppni á Opna franska mótinu eftir að hafa lent í deilum við mótshaldara um fréttamannafundi sem hún sagði að hefðu neikvæð áhrif á sig.

Osaka sagði í sjónvarpsþætti í morgun að hún elskaði áfram tennisíþróttina og hlakkaði til að komast aftur inn á völlinn. „Ég veit að ég mun keppa á ný, sennilega mjög fljótlega því ég er farin að iða í skinninu aftur. En mér væri sama hvort ég myndi vinna eða tapa. Það væri bara gleði að vera komin aftur af stað. Ég var vön að elska keppnina sem slíka og fannst leikirnir skemmtilegri eftir því sem þeir voru lengri. En síðan fór það að snúast við og ég var óstyrkari eftir því sem leikirnir lengdust. Ég þurfti að fá frí," sagði hin 23 ára gamla Naomi Osaka sem var um skeið efst á heimslista kvenna en er nú í sjöunda sæti.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert