Ættu ekki að fá að halda stórmót

Tom Daley og Matty Lee bíta í ólympíugullin sín á …
Tom Daley og Matty Lee bíta í ólympíugullin sín á Ólympíuleikunum í Tókýó í sumar. AFP

Breski dýfingamaðurinn Tom Daley segir að lönd þar sem LGBTQI+ fólki er mismunað á grundvelli laga ættu ekki að fá að halda stórmót.

Daley, sem er sjálfur samkynhneigður, vann til ólympíugulls á leikunum í Tókýó í sumar þegar hann og liðsfélagi hans Matty Lee reyndust hlutskarpastir í samhæfðum tíu metra dýfingum.

„Á Ólympíuleikunum tók fleira íþróttafólk sem er komið út úr skápnum en nokkru sinni fyrr þátt, það var magnað. En það voru tíu lönd að keppa á leikunum þar sem dauðarefsing er við samkynhneigð,“ sagði Daley í samtali við BBC Radio 5 Live.

„Ég hef talað opinskátt um það að mér finnst að lönd sem eru með lög sem kveða á um að glæpavæða eða mismuna LGBT fólki, konum eða hörundsdökku fólki, eigi ekki að fá að halda Ólympíuleika eða önnur íþróttastórmót.

Ef staðirnir geta ekki verið án aðgreiningar þegar kemur að því að horfa eða keppa, ef fólk telur að öryggi þess sé ekki tryggt, þá ætti ekki að leyfa þessum löndum að halda þessa viðburði þar til þau breyta lögum sínum,“ bætti hann við.

Samkynhneigð ólögleg í Katar

Daley nefndi sem dæmi Katar, þar sem samkynhneigð er bönnuð með lögum, en þar mun heimsmeistaramót karla í knattspyrnu fara fram undir lok árs 2022.

„Við ættum að forðast það að eltast bara við peningana. Við ættum að hafa áhyggjur af öryggi og mannréttindum fólks. HM í Katar á næsta ári, þar við höfum land þar sem búið er að eltast við peningana.

En verða konur öruggar þar í landi eða mun það verða öruggt fyrir LGBT fólk að fara að horfa á leiki. Myndi það vera öruggt fyrir þetta fólk að fara þangað og keppa?“ velti hann fyrir sér.

Stjórnvöld í Katar hafa sagt LGBTQI+ fólk velkomið til landsins á HM en að það þyrfti þó að virða katörsk lög.

„Við veltum því fyrir okkur af hverju fólk kemur ekki út úr skápnum, því við þurfum að ferðast til þessara landa þar sem þér verður ekki tekið eins og þú ert.

Fólk stendur frammi fyrir því að dúsa í fangelsi í Katar, það eru mjög ógnvekjandi aðstæður fyrir fjölda LGBT íþróttafólks. Þess vegna ætti að gefa því einhvern gaum og hugsa aðeins hvaða lönd megi halda stórmót,“ sagði Daley einnig.

mbl.is