Blandað lið Íslands fékk brons

Blandað lið Íslands í unglingaflokki við keppni í kvöld.
Blandað lið Íslands í unglingaflokki við keppni í kvöld. Ljósmynd/Fimleikasamband Íslands

Blandað lið Íslands í unglingaflokki hafnaði í þriðja sæti og vann sér þannig inn bronsverðlaun á Evrópumótinu í hópfimleikum í Guimaraes í Portúgal í kvöld.

Íslenska liðið fékk 49.450 í heildareinkunn og var skammt á eftir Svíþjóð, sem var með heildareinkunn upp á 50.050 og krækti í silfur. Bretland stóð uppi sem sigurvegari með 52.425 í heildareinkunn.

Í blönduðu liði keppa piltar og stúlkur í sameiningu.

Í fyrstu umferð keppti Ísland á dýnu og fékk þar 16.250 í einkunn.

Í annarri umferð keppti liðið á trampólíni þar sem það fékk 15.900 í einkunn.

Í lokaumferðinni keppti Ísland svo í dansi og fékk fyrir hann 17.300 í einkunn.

mbl.is