Vissi að þetta yrði „hell“

Sólveig og Þuríður brosa út að eyrum á mótinu í …
Sólveig og Þuríður brosa út að eyrum á mótinu í London um helgina enda á leið á Heimsleikana í crossfit í Wisconsin í ágúst. Ragnhildur Þórðardóttir, Ragga Nagli svokölluð, var viðstödd og leyfði mbl.is góðfúslega að nota þessa mynd sem hún tók. Ljósmynd/Ragga Nagli

Þær crossfit-kempur Sólveig Sigurðardóttir og Þuríður Erla Helgadóttir tryggðu sér um helgina þátttökurétt á Heimsleikunum í crossfit sem haldnir verða í Madison í Wisconsin vestanhafs í ágúst. Þetta gerðu þær með því að ná 3. og 4. sæti á þriggja daga úrtökumóti í London, Strenght in Depth, þar sem 30 konur öttu kappi. Þær Sólveig og Þuríður sögðu mbl.is frá mótinu um helgina og stórmótinu sem nú bíður þeirra. Sólveig reið á vaðið.

„Þetta eru í rauninni 60 stelpur en okkur er skipt á tvö mót í Evrópu, 30 á hvoru, og hitt mótið var í Amsterdam,“ útskýrir Sólveig. „Fimm af hvoru móti komast svo á Heimsleikana og svo er alveg eins uppstilling hjá strákunum,“ heldur hún áfram. Í London keppti einnig Katrín Tanja Davíðsdóttir sem hafnaði í 6. sæti, að sögn Sólveigar aðeins örfáum stigum frá því að fara til Wisconsin í ágúst.

Sólveig með þjóðfánann eftir að úrslit lágu fyrir um helgina. …
Sólveig með þjóðfánann eftir að úrslit lágu fyrir um helgina. Baki í myndavélina snýr Norðmaðurinn Jacqueline Dahlstrøm sem hafnaði í 1. sæti. Ljósmynd/Aðsend

„Greinarnar voru svona misgóðar fyrir mig, þetta voru sex greinar, tvær á föstudegi, tvær á laugardegi og tvær á sunnudegi, það eru 100 stig í pottinum fyrir fyrsta sæti, 97 stig fyrir annað sæti og lækkar svo alltaf um þrjú stig. Mótið hófst með 20 mínútna þolæfingu, hlaupi, róðri, tvöföldu sippi og hlaupi aftur,“ segir Sólveig frá en þar náði hún 2. sætinu og var sátt við.

Wod, event og alls konar

Þá hafi fimleikaæfingar tekið við þar sem hún hafi yfirleitt náð að halda sér ofan við miðju í frammistöðu en gengið mjög vel í öðrum greinum. „Ég vann lyftinga-wod-ið,“ til dæmis,“ segir Sólveig en í ríkulegu fagmáli crossfit-iðkenda stendur wod fyrir „workout of the day“ og er í raun bara haft um keppnisgrein en einnig er talað um „event“.

Gekk lyftinga-wod-ið út á lyftur sem eiga rætur sínar að rekja til ólympískra lyftinga og sem fyrr segir tók Sólveig fyrsta sætið þar og lenti svo í 3. sæti í lokagreininni og þar með 4. sæti í heild, örugg á Heimsleikana. Það var Norðmaðurinn Jacqueline Dahlstrøm sem vermdi toppsætið á efsta degi.

Hvað tekur þá við núna og fram að Heimsleikum? „Okkar mót var svo seint og ekkert svakalega mikill tími til stefnu. Ég er búin að vera að æfa á Mallorca og fer þangað aftur í næstu viku á æfingabúðir í mánuð. Þar verð ég í raun bara að æfa þangað til ég þarf að koma mér til Ameríku,“ útskýrir Sólveig og kveður skemmtilegan tíma fram undan.

Það lengsta sem þú kemst í crossfit

„Þetta verða mjög fjölbreyttar og skemmtilegar æfingar sem nú fara í gang fram að Heimsleikum,“ segir Sólveig en þátttakendur þar verða 80, skipt jafnt milli kynja, og ná leikarnir yfir fimm daga. Hvert stefnir Sólveig á leikunum?

Sólveig lætur engan bilbug á sér finna og les sig …
Sólveig lætur engan bilbug á sér finna og les sig fimlega upp kaðal í einu „wod“-inu í London en fagmál í crossfit er nánast sjálfstætt rannsóknarefni svo sem sjá má í þessu viðtali. Ljósmynd/Aðsend

„Bara að fara og gera það sem maður getur í hverju wod-i, það er auðvitað mjög stórt að komast inn á þetta mót, mig hefur dreymt um það í átta ár og hvert einasta ár hef ég horft á einhvern sem ég þekki fara þangað svo það er hálfsúrrealískt að núna sé ég að fara, þetta er svona það lengsta sem þú kemst í crossfit svo ég ætla í raun bara að njóta augnabliksins,“ segir Sólveig Sigurðardóttir að lokum, á leið á Heimsleikana í crossfit.

Róður versta æfingin

Víkur þá sögunni til Dietwil í Sviss þar sem Þuríður Erla Helgadóttir er búsett ásamt kærasta og tveimur hundum. „Fyrsta wod-ið gekk bara vonum framar,“ segir Þuríður, en allir keppendur í London þreyttu sömu raunir, eða wod, svo hún gerði það sama og Sólveig ræðir um hér að ofan. „Mín versta æfing er reyndar róður svo ég var bara fegin að komast vel í gegnum þetta, lenti í 5. sæti þarna. Næsta wod var svo „muscle-up“ í hringjum, „pistols“ sem eru hnébeygjur á öðrum fæti og „hang power snatch“ [æfing sem dregur vatn úr brunni ólympískra lyftinga]. Ég lenti í 3. sæti þarna og var bara mjög ánægð með það,“ segir Þuríður.

Þuríður lætur 45 metra handstöðulabb líta út eins og hvern …
Þuríður lætur 45 metra handstöðulabb líta út eins og hvern annan sunnudagsgöngutúr og gerir ekki mikið úr þessari keppnisgrein enda búin að stunda crossfit í á tólfta ár. Ljósmynd/@dimdam_edia

Hún hafi farið inn í næsta mótsdag með góða stigastöðu sem kom sér vel þar sem lyftinga-greinin var ekki í uppáhaldi eins og staðan var. „Ég lenti í bakveseni, meiddi mig aðeins í hnébeygju og átti mjög erfitt undirbúningstímabil í tólf vikur, gat til dæmis ekki lyft þungu,“ útskýrir Þuríður. „Svo ég hugsaði með mér ókei þetta er að fara að verða „hell“, eins og ég var í bakinu, en svo gekk þetta nú bara mjög vel þrátt fyrir allt, lenti í 14. sæti í þessu wod-i, klikkaði reyndar á síðustu þyngdinni en var samt mjög sátt,“ segir Þuríður sem tók heldur betur uppsveiflu í næstu grein.

Ánægð með að komast á pall

„Þar lenti ég í 1. sæti, greinin var réttstöðulyfta með ketilbjöllum, 45 metra handstöðulabb, hopp yfir kassa og „toes to bar“ [hangið á stöng og fótum lyft þar til tær nema við stöngina],“ segir hún og kveður það ekki eins erfitt og virðist að ganga tugi metra á höndunum enda búin að stunda crossfit í á tólfta ár.

„Fyrir þremur vikum gat ég ekki lyft stönginni en núna …
„Fyrir þremur vikum gat ég ekki lyft stönginni en núna um helgina komst ég gegnum lyftinga-wod-ið eins og ekkert væri. Markmiðið er í raun bara að komast á Heimsleikana verkjalaus.“ Ljósmynd/@dimdam_edia

Henni hafi hins vegar ekki litist á blikuna þegar kom að wod-inu „assault bike“ lokadag mótsins en því fylgdu einnig „burpees“, armbeygjur með hoppi á milli, og „thrusters“, æfing með lyftingastöng þar sem tekin er hnébeygja og stönginni að lokum lyft upp fyrir höfuð. „Þar þarf að nota hendur og fætur og mjög gott í þeirri grein að vera svolítið stór og þungur og ég er nú í léttari kantinum svo það er ekki uppáhaldsæfingin mín og ég var svolítið stressuð fyrir það. Ég náði ekki markmiði mínu í þessu wod-i en var mjög ánægð með að hafa bara keyrt á það og lenti í 7. sæti þar, sem skilaði mér að lokum í 3. sæti í heildina,“ segir Þuríður sem var mjög ánægð með að komast á verðlaunapall, það er eitt efstu þriggja sæta, en það hafi síðast gerst árið 2012.

Þar með bíður hennar lokaundirbúningur fyrir Heimsleikana. Bakið er gott eins og er enda þrír sjúkraþjálfarar búnir að koma að því að bjarga málunum. „Fyrir þremur vikum gat ég ekki lyft stönginni en núna um helgina komst ég gegnum lyftinga-wod-ið eins og ekkert væri. Markmiðið er í raun bara að komast á Heimsleikana verkjalaus,“ segir Þuríður.

„Panikk“ í sundi

Á undirbúningsdagskrá hennar er meðal annars sundkeppni í Sviss þar sem mörg þúsund keppendur hlaupa út í stöðuvatn og synda sem óðir væru. „Ég þarf að æfa mig í að fara með fullt af fólki út í vatn og synda með næsta mann nánast sparkandi framan í mig og annan að rífa í fótinn á mér. Ég „panikka“ nefnilega alltaf í sundinu á Heimsleikunum svo nú þarf ég bara að æfa mig í því og fara mikið í sund í vötnunum hér,“ segir Þuríður af undirbúningi sínum sem verður mjög blandaður þar sem á Heimsleikum fá keppendur ekki að vita um keppnisgreinarnar fyrir fram eins og á úrtökumótinu í London.

Þriðja sætið í höfn og Þuríður líkast til ekki beðin …
Þriðja sætið í höfn og Þuríður líkast til ekki beðin að geyma þessa myndarlegu ávísun fram að mánaðamótum. „Auðvitað langar mig að bæta minn besta árangur á Heimsleikunum sem er 9. sæti, það væri gaman að bæta það en ég fer bara inn í mótið með það markmið að gera mitt allra besta.“ Ljósmynd/@dimdam_edia

Hvaða væntingar gerir hún sér um árangur á leikunum? „Það hentar mér ekki andlega að setja neina pressu á mig að vera í einhverju ákveðnu sæti. Þetta veltur ekki allt á mér heldur líka hvernig hinum gengur, wod-unum sem koma og svo ótalmörgu öðru. Auðvitað langar mig að bæta minn besta árangur á Heimsleikunum sem er 9. sæti, það væri gaman að bæta það en ég fer bara inn í mótið með það markmið að gera mitt allra besta,“ segir Þuríður Erla Helgadóttir að lokum frá Dietwil í Sviss.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert