„Bæting er bæting“

Hilmar Símonarson gengur undir hnébeygjustöngina í gær. Hann setti fjögur …
Hilmar Símonarson gengur undir hnébeygjustöngina í gær. Hann setti fjögur ný Íslandsmet og gengur sáttur af móti. Ljósmynd/European Powerlifting Federation

Hilmar Símonarson keppti í gær á Evrópumeistaramótinu í klassískum kraftlyftingum í Skierniewice í Póllandi þar sem sex íslenskir keppendur reyna sig við stálið þessa dagana en keppt er í hvort tveggja unglinga- og fullorðinsflokkum og mótið langt eftir því, tíu dagar.

Hilmar keppti í gær í -66 kg flokki fullorðinna og hafnaði í sjöunda sæti af átta keppendum. Hann lyfti 197,5 kg í hnébeygju, sem er bæting á eigin Íslandsmeti um 2,5 kg. Bekkpressan endaði í 132,5 kg, einnig bæting á eigin Íslandsmeti um 2,5 kg og í raun tvö met þar sem single-lift-metið svokallaða var það sama. Réttstöðulyftan endaði í 212,5 kg sem var 5 kg frá hans besta. Samanlagður árangur var því 542,5 kg sem er bæting um 2,5 kg á eigin Íslandsmeti.

„Ég geng sáttur frá mótinu með fjögur ný Íslandsmet,“ segir Hilmar. „Ég er enn þá með smá áverkamerki eftir meiðslin sem ég varð fyrir á Vestur-Evrópumótinu núna í september en fer ekki að kvarta eftir að hafa bætt met í þremur af fjórum mögulegum flokkum. Hausinn vill oft meira, en skrokkurinn segir mér að átökin í gær voru það sem ég átti inni þennan daginn,“ heldur hann áfram.

Verðlaunaafhendingin í -66 kg flokki, Hilmar fyrir miðju í blárri …
Verðlaunaafhendingin í -66 kg flokki, Hilmar fyrir miðju í blárri peysu og svörtum buxum. Ljósmynd/Hinrik Pálsson

„Bæting er bæting, meiðslafrír og ég er staðráðinn í að gera enn betur á Reykjavíkurleikunum í lok janúar á næsta ári. Áfram Ísland!“ segir Hilmar að lokum vígreifur.

Einvígi á sunnudag

Á undan Hilmari höfðu Róbert Guðbrandsson og Alvar Helgason keppt. Á morgun keppir Viktor Samúelsson og á sunnudaginn Aron Friðrik Georgsson.

Á sunnudag dregur enn fremur heldur betur til tíðinda á Evrópumeistaramótinu þar sem Kristín Þórhallsdóttir, dýralæknirinn hrikalegi úr Borgarfirðinum, stígur á stokk í -84 kg flokki við þrettánda keppanda.

Ljóst er þó fyrir fram að um hreint einvígi verður að ræða í flokknum milli hennar og hinnar pólsku Agötu Sitko en árangur þeirra Kristínar, sem á titil að verja, í samanlögðu er um 50 kílógrömmum betri en næstu keppenda á eftir í flokknum. mbl.is fylgist grannt með viðureigninni í -84 kg flokki kvenna á sunnudaginn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert