Þarf að berjast fyrir hverjum einasta millimetra

Sami Lehtinen í kvöld.
Sami Lehtinen í kvöld. Ljósmynd/Kristín Hallgrímsdóttir

Sami Lehtinen, þjálfari karlaliðs SA-Víkinga í íshokkí, gat brosað breitt eftir að lið hans hafði unnið 4:1 sigur á SR í dag. Leikurinn var þriðji leikur liðanna í úrslitakeppninni og er SA nú með 2:1 forustu en þrjá sigra þarf til að tryggja sér Íslandsmeistaratitilinn.

Leikurinn í dag var jafn og spennandi lengi vel og markalaus fram á 35. mínútu. Þá kom fyrsta mark SA og eftir það voru Akureyringar með yfirhöndina.

„Þetta var jafn leikur, eins og við höfðum búist við. Í leikjum sem þessum þarf að berjast fyrir hverjum einasta millimetra á svellinu. Mér fannst okkar frammistaða mjög góð og liðið að spila nokkuð vel. Það voru vandræði á varnarsvæði okkar eftir að við vorum búnir að vinna pökkinn en að öðru leyti var þetta flottur leikur. Mér fannst við töluvert betri og þeir sköpuðu mjög lítið af færum.“

Það var jafnt 0:0 lengi vel. Var mikilvægt að ná að skora á undan? Það virðist oft gefa liðum sálfræðilega yfirhönd að skora mark þegar allt er í járnum og það kom strax annað mark frá ykkur í kjölfarið.

„Það hefur margoft sýnt sig að mark gefur liðum byr í seglin og það sýndi sig í dag. Í fyrsta leiknum töpuðum við 7:3 og þá var þetta öfugt við það sem við sáum í dag. Þá náðum  við ekki að skora og það dró úr okkur kraft á meðan þeim tókst að setja mörk.

Það er mikilvægt að halda haus í jafnri stöðu og leikurinn er 60 mínútur og það þarf að vera þolinmóður og spila eftir planinu, sama hver staðan er. Það koma hæðir og lægðir í hverjum leik og þá er nauðsynlegt að halda haus og fara ekki fram úr sér eða missa einbeitingu. Síðustu fjórir leikhlutar hjá okkur hafa verið góðir að þessu leyti,“ sagði Sami að lokum.

SA-ingurinn Ingvar Jónsson sækir í dag.
SA-ingurinn Ingvar Jónsson sækir í dag. Ljósmynd/Kristín Hallgrímsdóttir
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert