Kári tryggði SR oddaleik með marki í framlengingu

Jonathan Otuoma úr SR fremstur í baráttunni í Laugardalnum í …
Jonathan Otuoma úr SR fremstur í baráttunni í Laugardalnum í kvöld. mbl.is/Árni Sæberg

SR tryggði sér oddaleik í úrslitaeinvíginu um Íslandsmeistaratitil karla í íshokkí með sigri á SA, 5:4, í framlengdum leik í Skautahöllinni í Laugardal í kvöld.

SR var betri aðilinn í fyrsta leikhlutanum þrátt fyrir að SA hafi byrjað af krafti fyrstu mínúturnar. Fyrsta mark leiksins kom strax á áttundu mínútu en Jonathan Otuoma átti þá skot af löngu færi sem Sölvi Atlason rak kylfuna í og stýrði í netið. Skotið fór í gegnum mikla þvögu leikmanna og snerting Sölva skipti sköpum en Jakob Jóhannesson, markvörður SA fipaðist algjörlega við hana.

SA var þó ekki lengi að jafna. Á 14. mínútu fékk Andri Már Mikaelsson pökkinn vinstra megin á svellinu og liðsfélagar geystust fram með honum. Af bekknum kom Orri Blöndal, sem fékk pökkinn frá Andra alveg við bláu línuna, lagði hann fyrir sig og smellti honum alveg út við hægri stöng. Óverjandi fyrir Atla Valdimarsson, markvörð SR, en margir leikmenn stóðu í sjónlínu hans.

Þegar rétt rúmlega mínúta var eftir að leikhlutanum komust heimamenn svo aftur yfir með glæsilegu marki, með þá Ævar Arngrímsson og Heiðar Kristveigarson, fyrrverandi leikmenn SA, í aðalhlutverki. Ævar gerði þá frábærlega með bakið í markið áður en hann lagði pökkinn á Styrmi Maack, sem fann Heiðar galopinn af um meters færi. Heiðar gerði engin mistök og lyfti pekkinum skemmtilega upp í þaknetið.

Annar leikhluti fór rólega af stað og voru bæði lið satt að segja í vandræðum sóknarlega fyrsta korter hans eða svo. Leikhlutinn einkenndist af ónákvæmum sendingum sem ollu því að hver sóknin á fætur annarri rann út í sandinn. 

Það færðist þó fjör í leikinn þegar um fimm mínútur voru eftir af leikhlutanum og á 36. mínútu jafnaði SA metin. Andri Már fékk pökkinn þá fyrir framan mark SR, og þrátt fyrir að brotið væri á honum kom hann pekkinum á Hafþór Andra Sigrúnarson sem kláraði laglega undir Atla í marki SR af stuttu færi. Dómararnir höfðu gefið merki um brot þegar Andri var felldur en sá dómur féll niður þar sem SA skoraði.

Þegar tæplega fjórar mínútur voru liðnar af þriðja leikhluta komust heimamenn svo yfir í þriðja sinn. Níels vann þá pökkinn og lagði hann til vinstri á Kára Arnarsson. Kári skautaði með hann yfir bláu línuna, lét vaða og pökkurinn söng í netinu. Gjörsamlega frábært mark.

SA var þó ekki lengi að svara. Nánast í næstu sókn kom jöfnunarmark og enn lék Andri Már stórt hlutverk. Hann bar pökkinn upp vinstra megin áður en hann lagði hann á Jóhann Má fyrir framan markið. Jóhann missti pökkinn aftur fyrir sig en þar kom Gunnar Arason á hvínandi siglingu og negldi honum í netið af stuttu færi.

Það var svo Andri Már sem fullkomnaði frábæran leik sinn þegar hann kom SA yfir í fyrsta sinn í leiknum á 52. mínútu. Orri Blöndal setti pökkinn þá blint upp völlinn þar sem Andri hreinlega rændi honum aftur af varnarmönnum SR áður en hann kláraði af stakri yfirvegun framhjá Atla markverði. Mikil reynsla í þessari afgreiðslu hjá manni leiksins í kvöld.

SR lagði allt í sölurnar til að jafna metin og þegar tvær mínútur eftir tók liðið markvörð sinn af velli og bætti við auka manni í sóknina. Það bar árangur þegar rúm mínúta var eftir en Sölvi Atlason skoraði þá sitt annað mark í leiknum. Hann fékk pökkinn um sex metrum frá markinu, lagði hann fyrir sig og smellti honum í netið, virkilega snyrtilega gert.

Í framlengingunni voru það svo heimamenn sem voru sterkari. Þegar um tvær og hálf mínúta var liðin af henni gerðu SA-ingar skiptingar og gleymdu Kára Arnarssyni aleinum hægra megin á svellinu. Hann fór í rólegheitunum upp að marki SA og kláraði svo af mikilli yfirvegun yfir Jakob í marki SA.

Það mun því fara fram oddaleikur í Skautahöllinni á Akureyri á fimmtudaginn þar sem Íslandsmeistari verður krýndur. Leikurinn hefst klukkan 19.30.

SR 5:4 SA opna loka
63. mín. Kári Arnarsson (SR) Mark 4:5! - SA-ingar fara í skiptingar og gleyma Kára aleinum hægra megin. Hann fær pökkinn aleinn og sýnir þvílíka yfirvegun í færinu áður en hann klárar stórkostlega framhjá Jakobi!
mbl.is