„Ég hreinlega gat ekki teygt mig millimetra lengra“

Atli Valdimarsson með bikarinn í leikslok.
Atli Valdimarsson með bikarinn í leikslok. Ljósmynd/Kristín Hallgrímsdóttir

Atli Valdimarsson, markvörður íshokkíliðs SR, var af öðrum ólöstuðum aðalmaðurinn þegar lið hans tryggði sér Íslandsmeistaratitilinn í kvöld. Atli var reyndar frábær alla seríuna en SR var að vinna fyrsta titil sinn í 14 ár.

Sæll Atli. Er þetta fyrsti titillinn í húsi hjá þér?

„Já þetta er minn fyrsti íslandsmeistaratitill.“

Og ekki sá síðasti.

„Ég ætla rétt að vona ekki. Djöfull er þetta gaman maður.“

Það hlýtur að vera gaman að vera í svona stuði eins og þú hefur verið í, leik eftir leik.

„Já þetta var löng og erfið sería. Bæði liðin mjög góð, en þú veist. Formið er í lagi hjá mér og öllum strákunum og það skilaði sér í endann.“

Liðsmenn SR fagna. Atli er á miðri mynd númer 29.
Liðsmenn SR fagna. Atli er á miðri mynd númer 29. mbl.is/Árni Sæberg

Það er búinn að vera góður stígandi hjá ykkur. Ekki bara í vetur heldur síðustu ár. SR vann varla leik fyrir nokkrum árum en nú eruð þið bestir.

„Jú, ég held að fyrir einhverjum þremur árum þá var SR að vinna sinn fyrsta leik í tvö heil tímabil. Þetta er því búið að fara upp mjög hratt. Þetta er geggjað lið og geggjað félag. Þessi titill var unninn af liðsheild og góðri samvinnu.“

Hefur þú alltaf verið í SR?

„Nei. Ég var í Birninum í gamla daga. Svo kom stutt stopp í Esju og nú er ég í SR.“

Þegar rýnt er í leiki SA og SR í vetur þá tapið þið sjö leikjum gegn þeim í deildinni, þar af fjórum hér á Akureyri. Í úrslitakeppninni þurfið þið að sækja a.m.k. einn sigur hingað norður en gerið enn betur og vinnið tvo leiki hér og landið titlinum.

„Já það vita það allir að hingað er ekkert sótt gefins og stuðningsmenn SA eru líka öflugir. Það er bara magnað hvernig við náðum að snúa þessu við. Tókum fyrsta leikinn hérna og svo oddaleikinn þegar allt er undir og Skautahöllin full. Það mátti búast við jafnari keppni núna eftir að deildin kláraðist. Liðin gíra sig upp og mér fannst við aldrei ná að spila okkar besta hokkí í vetur. Það var eitthvað sem vantaði. Síðan komum við bara af fullum hálsi inn í úrslitakeppnina og vissum nákvæmlega hvað við þurftum að gera.“

Þegar tölfræðin úr leikjunum er skoðuð þá kemur þú afar vel út úr henni, ávallt með haug af vörslum. SA er að skila mun fleiri skotum á mark eins og t.a.m. í kvöld þar sem þeir eru með 36 skot á móti 20 frá ykkur. Það hefur mætt mikið á þér.

„Já. Þeir eru duglegir að skjóta og hafa alltaf verið það. Þetta er alveg viðbúið. Það verður bara að taka því, reyna að verja sem mest og treysta á að við skorum eitthvað á hitt markið.“

Leikmenn SR fagna vel og innilega í leikslok.
Leikmenn SR fagna vel og innilega í leikslok. Ljósmynd/Kristín Hallgrímsdóttir

Þú þurftir að taka á honum stóra þínum þegar tíu sekúndur voru eftir af leiknum. Þá varðir þú í tvígang á einhvern ótrúlegan hátt til að forða jöfnunarmarki. Langar þig ekki að sjá þetta í mynd á eftir.

Nú hlær Atli. „Jú það yrði mjög skemmtilegt. Ég hreinlega gat ekki teygt mig millimetra lengra.“

Er liðleikinn þá lykilatriði fyrir menn í þinni stöðu?

„Jú hann er alveg mikilvægur en mikilvægast er að geta haldið ró sinni eins og á svona augnablikum“ sagði markvörðurinn og Íslandsmeistarinn að skilnaði.

mbl.is